Hafa fallist á vopnahlé

Yfirvöld í Nagornó-Karabak segja að 32 manns hafi látist í …
Yfirvöld í Nagornó-Karabak segja að 32 manns hafi látist í átökunum og yfir 200 manns særst. AFP

Aðskilnaðarsinnar í Nagornó-Karabak-héraðinu hafa fallist á vopnahlé eftir að hersveitir Aserbaídsjan hófu aðgerðir í héraðinu í gær.

Héraðið er landlukt í Suður-Kákasus, innan landamæra Aserbaídsjan, en flestir íbúar þess eru Armenar. Héraðið hefur verið undir sjálfskipaðri stjórn aðskilnaðarsinnaðra Armena, en rússnesk friðargæslulið hafa verið á svæðinu síðan 2020.

Samþykkja viðræður um sameiningu

Í tilkynningu sjálfskipaðra yfirvalda í Karabak-héraðinu segir að stjórnin hafi fallist á að leggja niður öll vopn og leysa upp stjórnina.

„Með milligöngu yfirstjórnar rússnesku friðargæslusveitanna sem staðsettar eru í Nagornó-Karabak, náðist samkomulag um algjöra stöðvun stríðsátaka frá klukkan 13 [að staðartíma] þann 20. september 2023,“ sagði í tilkynningu aðskilnaðarstjórnarinnar

Í yfirlýsingu sagði einnig að aðskilnaðarsinnar hefðu samþykkt tillögu Aserbaídsjan um að hefja viðræður um að sameina svæðið við Aserbaídsjan. Viðræður hefjast á morgun.

Sakaði Asera um að hyggja á þjóðernishreinsun

Varnarmálaráðuneyti Aserbaídsjan, tilkynnti í gær að hersveitir landsins myndu hefja aðgerðir gegn hryðjaverkhópum í héraðinu sem hefðu tekið sér völd á landsvæði Asera. Kváðust þau krefjast þess að „ólöglegar armenskar hersveitir dragi hvíta fánann að húni“, til að hægt væri að hefja sáttarviðræður.

Forsætisráðherra Armeníu, Nikol Pashinyan, sakaði Aserbaídsjan um að hyggja á þjóðernishreinsun í héraðinu, en meginhluti íbúa eru Armenar. 

Rússneskir friðargæsluliðar hafa þegar rýmt heimili á hættulegasta svæðinu í …
Rússneskir friðargæsluliðar hafa þegar rýmt heimili á hættulegasta svæðinu í Karabak og flutt um 2.000 manns á brott. AFP

Rússneskir friðargæsluliðar rýmdu heimili

Und­an­farna mánuði hef­ur ríkt mik­il spenna á svæðinu sem alþjóðasam­fé­lagið viður­kenn­ir að sé hluti af Aser­baísj­an. Aðeins þrjú ár eru liðin síðan stríð ríkti á milli nágrannalandanna tveggja. 

Rússneskir friðargæsluliðar hafa þegar rýmt heimili á hættulegasta svæðinu í Karabak og flutt um 2.000 manns á brott. Yfirvöld í héraðinu hafa biðlað til íbúa að halda kyrru fyrir í stað þess að flýja.

mbl.is
Loka