Um helmingur íbúa hefur flúið svæðið

Armensk stjórnvöld segja að tæpur helmingur íbúa í Nagornó-Karabak hafi flúið fjallahéraðið eftir að hersveitir Aserbaídsjans náðu völd­um þar í síðustu viku.

Mikil átök hafa verið milli aðskilnaðarsinna og asersku hersveitanna í héraðinu að undanförnu en Nagornó-Karabak er landlukt hérað sem alþjóðasamfélagið viðurkennir sem hluta af Aserbaídsjan.

Mik­ill meiri­hluti íbúa í Nagornó-Kara­bak er aftur á móti af armensk­um upp­runa og hafa stjórnvöld í Jerevan nú reynt að taka á móti flóði af heimilislausum Armenum, sem hafa þurft að flýja aftur til upprunalandsins.

Stormasamt samband

Sam­band ná­granna­ríkj­anna Aser­baíd­sj­an og Armen­íu hef­ur verið storma­samt í gegn­um tíðina en rík­in hafa í tvígang farið í stríð hvort gegn öðru vegna Nagornó-Kara­bakh. Fyrst snemma á tí­unda ára­tugn­um eft­ir fall Sov­ét­ríkj­anna og svo aft­ur árið 2020.

Frá því í des­em­ber höfðu Aser­ar lokað einu leiðinni inn og út af svæðinu frá Armen­íu, sem kall­ast Lachin-gang­ur­inn, en nú hefur gangurinn verið opnaður að nýju og hafa rúmlega 50 þúsund flóttamenn flust til Armeníu síðan þá.

Um 120 þúsund banns búa í héraðinu. Nokkrir flóttamenn við landamærin sögðu við AFP-fréttaveituna að þeir hefðu verið hvattir af aðskilnaðarsinnum til að flýja land.

Um hundrað manns saknað eftir sprengingu

Um 68 manns létust í bens­ín­spreng­ingu í borginni Step­ana­kert í Nagornó-Kara­bak á mánudaginn og voru tæplega 300 manns lagðir inn á spítala. Þar að auki er um 100 manns enn saknað.

Sprengingin varð þegar flóttafólk var að safna bensínbirgðum fyrir ferðina til Armeníu, en Lachin-gangurinn liggur yfir stórt fjall.

Fjölskylda býr sig undir brottför til Armeníu. Um 50.000 íbúar …
Fjölskylda býr sig undir brottför til Armeníu. Um 50.000 íbúar í Nagornó-Karabak hafa flúið fjallahéraðið á seinustu dögum. AFP
mbl.is
Loka