Bandaríkin gætu einangrast í afstöðu sinni

Eiríkur segir grimmdarverk Ísraelshers fordæmalítil í hernaðarsögu heims og að …
Eiríkur segir grimmdarverk Ísraelshers fordæmalítil í hernaðarsögu heims og að slíkt breyti afstöðu heimsbyggðarinnar.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir Bandaríkin ávallt hafa verið helsta stuðningsmann Ísraelsríkis. Bandaríkjamenn hafi þolað Ísraelsríki nánast hvað sem er í framgöngu sinni gagnvart palestínsku þjóðinni. 

„Þetta er áframhaldandi stuðningur í þá átt,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is varðandi ákvörðun Bandaríkjanna um að beita neitunarvaldi sínu gegn tillögu um tafarlaust vopnahlé á Gasasvæðinu. 

„Hins vegar virðist manni sem nánast fordæmalítill stuðningur, sem að Ísrael naut við árás Hamas, vera að snúast hraðbyri við í heiminum, sem að horfir nú í auknum mæli upp á hörmungar sem að margir helstu greinendur veraldar eru farnir að líta á sem svo að stappi nærri þjóðarmorði.“

Segir Eiríkur slíkt merki um að breytingar gætu verið í vændum varðandi viðhorf til stöðunnar í Ísrael og Palestínu. Bandaríkin gætu einangrast töluvert í afstöðu sinni.

Fleiri ríki krefjast endurskoðunar á samsetningu öryggisráðsins.
Fleiri ríki krefjast endurskoðunar á samsetningu öryggisráðsins. AFP/Charly Triballeau

Krefjast endurskoðunar á samsetningu öryggisráðsins

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, beitti  ákvæði í stofnssáttmála stofnunarinnar, sem er sjaldan beitt, og boðaði til neyðarfundar með öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að lýsa yfir áhyggjum sínum af alþjóðaöryggi vegna átakana í Ísrael og Palestínu. Bandaríkin eru meðal fimm þjóða í ráðinu sem hafa varanlegt sæti og neitunarvald.

Segir Eiríkur að ákvörðun Bandaríkjanna muni endurnýja spurningamerki um samsetningu öryggisráðsins, sem lengi hafi verið uppi en legið í láginni þar til nú. Fleiri ríki séu þegar farin að krefjast endurskoðunar á samsetningu ráðsins.

Áhugavert að Bretar hafi setið hjá

Spurður um ákvörðun Guterres að beita ákvæði 99. greinar stofnssáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvort það hafi sitt að segja um alvarleika ástandsins svarar Eiríkur játandi.

„Grimmdarverk Ísraelshers eru fordæmalítil í hernaðarsögu heimsins. Hlutfall óbreyttra borgara sem falla í þessum hernaði er hærra en í nokkru öðru stríði heims, þar með talin fyrri og síðari heimsstyrjöld,“ segir Eiríkur og bætir við að slíkt breyti afstöðu heimsbyggðarinnar. 

Til að mynda sé það athugavert að Bretland hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu öryggisráðsins. Stuðningur helstu landa heims, þar á meðal Bretlands, hafi verið algjör og skýr í kjölfar árásar Hamas á Ísrael þann 7. október. Nú virðist hins vegar vera að koma annað hljóð í strokkinn. 

„Maður hefði fyrirfram haldið að Bretland myndi standa með Ísrael og Bandaríkjunum. Það að þeir sitji hjá bendir til þess að þessi skilyrðislausi stuðningur sé að breytast, núna þegar grimmdarverkin eru betur komin í ljós.“

Margir hafa látið lífið í átökunum.
Margir hafa látið lífið í átökunum. AFP

Hvers vegna er stuðningur Bandaríkjanna nær óbilandi? 

Spurður hvers vegna stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael sé nær óbilandi segir Eiríkur það mega rekja aftur til seinni heimsstyrjaldar. Gyðingar hafi sótt víða um heim, en tveir áfangastaðir hafi verið helstir: Ísrael og Bandaríkin.

„Þeir urðu, bandarískir gyðingar, alveg að gríðarlega sterku og öflugu afli í bandarískum stjórnmálum, sem hefur haft tögl og haldir í báðum flokkum þar allar götur síðan og það býr til þennan stuðning,“ segir Eiríkur.

Stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael hafi verið algjör alveg frá stofnun ríkisins og lýsir sér meðal annars í litlum mótbárum þeirra við landtöku Ísraels.

„Ísraelsríki er náttúrulega útþenslusamt, hefur hertekið gríðarlega mikið land. Langt umfram það sem því var veitt í upphafi og Bandaríkin hafa ekki mótmælt því mjög ákaft og í raun stutt landtöku Ísraelsmanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert