Jordans-skór seldust á yfir milljarð íslenskra króna

Hér má sjá Jordans XIII-strigaskó í útstillingu hjá Sotheby's í …
Hér má sjá Jordans XIII-strigaskó í útstillingu hjá Sotheby's í fyrra. AFP/Timothy A. Clary

Sex einstök af Nike Air Jordans-strigaskóm, sem körfuboltastjarnan Michael Jordan klæddist á tíunda áratugnum, seldust á föstudag fyrir alls átta milljónir bandaríkjadala eða fyrir rúmlega 1,1 milljarð íslenskra króna á uppboði hjá Sotheby's í New York.

Körfuboltagoðsögnin vann alls sex NBA-meistaratitla á ferli sínum en á uppboðinu voru skórnir sem hann var í þegar hann vann titlana.

Michael Jordan árið 2020.
Michael Jordan árið 2020. AFP/Franck Fife

Um að ræða met

Í yfirlýsingu frá uppboðshúsinu kemur fram að verðið sem náðist fyrir skósafnið, sem ber heitið „Dynasty Collection“, verði líklega aldrei endurtekið. Þá var nafn kaupandans ekki gefið upp en um var að ræða nýtt met á skóm sem hafa verið notaðir í leikjum og seldir á uppboði.  

„Þetta er verðmætasta og merkasta safn sem til er af þeim Air Jordans-strigaskóm sem hafa komið á markað,“ segir á heimasíðu uppboðshússins.  

Settið samanstóð af Air Jordan VI (1991), Air Jordan VII (1992), Air Jordan VIII (1993), Air Jordan XI (1996), Air Jordan XII (1997) og Air Jordan XIV (1998).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert