Trump tókst að útvega 25 milljarða

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Charly Triballeau

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, greiddi 175 milljónir bandaríkjadala í tryggingafé, eða tæpa 25 milljarða króna, vegna dómsmáls í ríkinu New York.

Með þessu komst hann hjá því að eignir hans yrðu mögulega gerðar upptækar. Um er að ræða tryggingafé vegna áfrýjunar hans í fjársvikamáli. 

Í síðustu viku lækkaði áfrýjunardómstóll í New York greiðslu tryggingafjár sem Trump þurfti að inna af hendi úr 454 milljónum bandaríkjadala í 175 milljónir. Fékk hann tíu daga frest til greiða upphæðina.

Tryggingafyrirtæki frá ríkinu Kaliforníu, Knight Speciality Insurance Company, veitti Trump líflínuna, að því er kemur fram í dómsskjölum sem voru gerð opinber í morgun.

Trump og fyrirtæki hans voru fundin sek um að hafa á ólög­leg­an hátt látið líta út fyr­ir að ríki­dæmi hans væri meira en það var og ýkt þannig virði eigna hans í von um að fá betri kjör á bankalán­um eða trygg­ing­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert