Raunveruleg ógn stafar af Íran

Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, varaði við því í …
Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, varaði við því í ræðu á miðviku­dag að „illri stjórn“ Ísra­els „yrði að refsa“. AFP/Khamenei.ir

Stjórnvöld í Bandaríkjunum meta það sem svo að raunveruleg ógn stafi af hótunum Írans gagnvart Ísrael.

Náið er fylgst með ástandinu en aukin hætta er á stigmögnun í Mið-Austurlöndum eftir að ræðismanns­skrif­stofa Írans í Sýrlandi var sprengd í síðustu viku og tveir íranskir hershöfðingjar felldir.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á miðvikudaginn að Íran hefði hótað meiriháttar árás á Ísrael, en Íran sakar Ísrael um verknaðinn. 

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn fyrr í dag að ógnin væri raunveruleg en hann gat þó ekki tjáð sig um það hvort að árás af hálfu Írans væri yfirvofandi.

Styrkir bönd Ísraels og Bandaríkjanna enn frekar

„Ég ætla bara að segja að við erum að fylgjast mjög náið með ástandinu,“ sagði Kirby og bætti við að Bandaríkin myndu sjá til þess að Ísraelsmenn hefðu allt sem þeir þyrftu til að verja sig. Þá sagði hann einnig að Bandaríkin væru að tryggja að sínir hermenn á svæðinu væru vel undirbúnir.

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði fyrr í dag að Bandaríkin og Ísrael stæðu saman gegn ógninni frá Íran.

„Óvinir okkar halda að þeir geti sundrað Ísrael og Bandaríkjunum, en hið andstæða er satt. Þeir eru að draga okkur nær saman og að styrkja böndin,“ sagði Gallant.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert