Biden í klípu

Pólitísk örlög Joe Biden og Benjamin Netanjahú eru sögð samofin.
Pólitísk örlög Joe Biden og Benjamin Netanjahú eru sögð samofin. Samsett mynd/AFP

Árás Írana á Ísrael setur Joe Biden Bandaríkjaforseta í snúna stöðu gagnvart þjóð sinni og alþjóðasamfélaginu.

Biden hefur þegar komið þeim skilaboðum á framfæri að hann styðji ekki gagnárásaraðgerðir Ísraela en á sama tíma telja harðlínumenn vestanhafs sem og í Ísrael ótækt að Íranar komist upp með að beita slíkri árás án þess að henni sé svarað.

Biden milli steins og sleggju 

Fari svo að Ísraelsmenn svari árásinni með eigin árás kann það að líta illa út gagnvart bandarískum kjósendum. Að þeirra eigin forseti sé svo áhrifalaus að bandamenn þjóðarinnar fari gegn vilja hans. Slíkt hefði þótt óhugsandi á árum áður. 

Haft er eftir ráðgjöfum sem eru nærri forsetanum að Biden sé ekki viss um það hvar hann hafi Netanjahú hvað gagnárás varðar.

Biden er mikið í mun að átökin stigmagnist ekki en sérfræðingar hafa bent á að Netanjahú gæti freistast til að ráðast á Íran til beina sjónum frá því hve litlum árangri stríðsrekstur þeirra á Gasasvæðinu er að skila. Enn hafa afar fáir gíslar sem Hamas-liðar tóku í hryðjuverkaárásinni 7. október skilað sér til baka á lífi. 

Skammgóður vermir

Bandaríkjamenn hafa þó þann ás upp í erminni að þeir eru helsti vopnaframleiðandi ísraelska hersins og hafa í gegnum tíðina séð Ísraelsmönnum fyrir helstu vopnum af nýjustu gerð.

Biden hefur undanfarin misseri ekki verið eins staðfastur í að lýsa yfir eindregnum stuðningi við Ísraelsmenn þegar kemur að hernaði á Gasa. Biden hefur hins vegar áréttað óskoraðan stuðning Bandaríkjamanna við Ísrael eftir árás Írana.

Er hann talinn hafa spilað rullu í því að Ísraelsmenn hafi ekki svarað árás Írans strax í dag.

Sérfræðingar í málefnum Mið-Austurlanda telja hins vegar að það sé skammgóður vermir og að allar líkur séu á því að Ísraelar muni svara fyrir sig með einhverjum hætti. Líklega með því að velja skotmörk í Íran sem þykja hernaðarlega mikilvæg.

Hafa sagt Biden veiklyndan

Verði það niðurstaðan þykir það táknrænn ósigur fyrir Biden fyrir komandi forsetakosningar í nóvember.

Andstæðingur hans, Donald Trump, hefur leitt kór Repúblikana sem segja Biden veiklyndan þegar kemur að því að ná vilja Bandaríkjamanna fram á alþjóðavettvangi.

Þá hafa ungir kjósendur á vinstri væng stjórnmálanna verið ósáttir við forsetann vegna þess hve illa honum hefur gengið að stöðva blóðsúthellingar á Gasasvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert