„Stríð Ísraels og Írans yrði strategískt stríð“

Albert Jónsson, sér­fræðing­ur í alþjóðamál­um og fyrr­ver­andi sendi­herra Íslands í Rússlandi, segir að Ísrael þurfi með einhverjum hætti að bregðast við þeirri fordæmalausu árás sem Íranar gerðu í nótt. 

„Þetta eru mikil tímamót,“ segir Albert í samtali við mbl.is og bendir á að árásin sé hluti af stigmögnun stríðsins á Gasa, sem hófst með hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael, þann 7. október. Hann leggur samt áherslu á að Íran og Ísrael hafi lengi átt í deilum hvort við annað, burtséð frá stríðinu á Gasaströndinni. 

Íranski herinn skaut 300 árásardrónum og flugskeytum að Ísrael í fordæmalausum árásum í nótt. 

Albert Jósson, fyrr­ver­andi sendi­herra Íslands í Rússlandi. Yoav Gallant, utanríkisráðherra …
Albert Jósson, fyrr­ver­andi sendi­herra Íslands í Rússlandi. Yoav Gallant, utanríkisráðherra Ísraels, og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.

Tilvistarógn fyrir Ísrael

„Nú er beðið eftir viðbrögðum ísraelskra stjórnvalda. Þau munu, að mínu mati, bregðast við með einhverjum hernaðarlegum hætti.“

„Það sem gerðist í nótt var stórfelld árás frá Íran, í fyrsta sinn að mér skilst sem er gerð bein árás á Ísrael þaðan. Hún kemur líka frá landsvæðum bandamanna Írana í Sýrlandi og Írak,“ útskýrir Albert.

Hann segir að óháð hernaðarlegum árangri árásarinnar, sem var lítill, stafi Ísrael „tilvistarógn“ frá Írönum. Albert væntir þess samt að alþjóðasamfélagið krefji Ísrael um að stilla viðbrögðum í hóf.

Má ekki gera allt inni í sendiráðinu sínu

Árásin var ekki gerð upp úr þurru, heldur var hún móti hefndaraðgerð vegna loftárásar sem var gerð 1. apríl á ræðismannsskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi. Íranar kenna Ísrael um árásina.

Albert telur árás á ræðisskrifstofuna ekki endilega jafngilda árás á sjálft ríkið.

Tveir háttsettir hers­höfðingjar ír­önsku bylt­ing­ar­varðanna voru felldir í árásinni. Sú árás var hernaðaraðgerð, að sögn Alberts:

„Svo eru ákveðin norm. Þú getur ekki gert hvað sem þér sýnist inni í sendiráðinu þínu og haft þar hershöfðingja sem eru beinlínis að vinna að árásum á önnur ríki.“

Hann heldur áfram:

„Þetta tengist Hisbollah, hryðjuverkasamtökum í Líbanon, sem eru starfandi þar og líka í Sýrlandi. Og Hisbollah eru verkfæri íranskra stjórnvalda, starfa með stuðningi Írana.“

Útséð um hvort Bandaríkin skerist inn í leikinn

Albert telur einnig ólíklegt að Bandaríkin blandist frekar inn í átökin, enda hefur Bandaríkjaforseti lýst því yfir að sú sé ekki ætlunin.

„Það er allt annað mál að taka þátt í að verja Ísrael, sem þeir munu hafa gert í nótt, og Bretar líka […]. En að ráðast á Íran með Ísrael er allt annar handleggur,“ bætir hann við.

„Þau verða, að mínu mati, að bregðast við með einhverjum …
„Þau verða, að mínu mati, að bregðast við með einhverjum hætti,“ segir Albert Jónsson, sér­fræðing­ur í alþjóðamál­um. mbl.is/Hallur Már

Átökin yrðu strategísk

„Þetta eru náttúrulega gerólík átök,“ segir Albert og á þar annars vegar við um stríðið á Gasa og hins vegar líkleg átök á milli Ísraels og Írans.

„Stríð Ísraels og Írans yrði strategískt stríð, sem átökin á Gasa eru ekki, þó þau skipti auðvitað feikilega miklu máli frá sjónarhóli Ísraels – að svara fyrir árásina 7. október,“ bætir hann við.

Hamas-vígamenn drápu um 1.140 manns í hryðjuárásinni þann 7. október og tóku á þriðja hundrað manns í gíslingu. Í hefndaraðgerðum sínum hefur Ísraelsher drepið rúmlega 33 þúsund Palestínumenn, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa.

Biden Bandaríkjaforseti varaði Írana við því að Bandaríkin myndu verja …
Biden Bandaríkjaforseti varaði Írana við því að Bandaríkin myndu verja Ísrael fyrir árásum. AFP/Mandel Ngan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert