Íranar segjast hafa gætt hófs í árásum sínum

Nasser Kanaani talsmaður utanríkisráðuneytis Írans
Nasser Kanaani talsmaður utanríkisráðuneytis Írans Ljósmynd/Irna.ir

Stjórnvöld í Íran segja að Vesturlönd eigi að átta sig á hversu hófstilltar hernaðaraðgerðir Írana gegn Ísrael hafi verið.

Árás Íran á Ísrael á sunnudag var andsvar við mannskæðri árás á sendiskrifstofu Írans í höfuðborg Sýrlands, Damaskus, sem talið er víst að Ísrael beri ábyrgð á.

Vesturlönd ætttu að vera þakklát

Nasser Kanani, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans segir að „í stað þess að ásaka Íran ættu [Vesturlönd] frekar að ásaka sjálf sig og svara almenningsálitinu heima fyrir um þær aðgerðir sem þau hafa gripið til til gegn stríðsglæpum Ísraelsmanna.”

Kanani sagði enn fremur að stjórnvöld á Vesturlöndum ættu að vera þakklát fyrir að Íranar hafi haldið að sér höndum undanfarna mánuði.

Bandaríkjamenn fengu að vita fyrirfram af árásinni

Vestrænir leiðtogar hafa fordæmt árásir Írana á Ísrael, en Íranar segja árásina hafa verið gerða í „sjálfsvörn.“

Íranir segja að þeir hafi látið Bandaríkjamenn vita að árásin vofði yfir 72 klukkutímum, eða þremur sólarhringum fyrirfram. Þeir segja að um „takmarkaða“ árás á Íran hafi verið að ræða.

Neita aðild að hryðjuverkaárásunum 7. október

Atburðarrás helgarinnar tengist átökunum á Gasa, sem hófust með hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael 7. október, þar sem 1.170 voru myrt, flestir almennir borgarar. Klerkastjórnin í Íran styðja Hamas sem ráði og dáð, en segjast saklaus af skipulagningu hryðjuverkanna 7. október.

Talsmaður utanríkisráðherra Írans sagði jafnframt að árás Írana hafi átt að fæla Ísraelsmenn frá frekari aðgerðum sem skaðað gætu hagsmuni Írans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert