Stafkirkja rís í Heimaey

BYRJAÐ er að reisa í Vestmannaeyjum stafkirkju af sömu gerð og reistar voru í Noregi á upphafsárum kristni þar í landi fyrir 1000 árum. Fjórir norskir smiðir eru komnir til Eyja sérstaklega til að reisa kirkjuna en áætlað er að vígja hana 30. júlí næstkomandi að viðstöddum fyrirmennum. Mun Haraldur Noregskonungur sjálfur hafa hug á því að verða viðstaddur athöfnina ásamt eiginkonu sinni, Sonju.

Kirkjan er þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga í tengslum við 1000 ára kristnitökuafmælið hér á landi en íslenska ríkisstjórnin leggur til stofnframlag til að kirkjan fái umgjörð við hæfi á Heimaey. Fyrirtækið Stokk og Stein í Lom í Noregi hefur unnið að smíði kirkjunnar og nánast byggði hana upp innan dyra þar ytra. Í apríl var kirkjan síðan flutt í einingum til Íslands og er fullnaðarsmíði hennar nú hafin.

Kirkjan mun standa fyrir miðjum syðri hafnargarðinum í Heimaey en kirkja sú sem Hjalti Skeggjason reisti árið 1000 mun hins vegar hafa verið norðan innsiglingarinnar á Hörgaeyri. Í vetur hefur verið unnið að kirkjustæðinu en Pétur Jónsson landslagsarkitekt hannaði umgjörðina. Verið er að hlaða garða í gömlum stíl í kringum kirkjuna, sem og gangstíga, en sjálfur hafnargarðurinn verður lóð kirkjunnar með lýsingu, munstursteypu og sérstakri kirkjubyggingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert