Kúlan kom úr finnska sykurskipinu

Páll Guðbergsson, félagi í Sportkafarafélagi Íslands, segir að fallbyssukúlan, sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær, hafi fundist í svokölluðu "sykurskipi" sem strandaði á Leiruboða skammt utan við Álftanes árið 1939.

Hann telur ólíklegt að þessi kúla eða aðrar, sem félagar í Sportkafarafélaginu tóku úr skipinu, séu mjög gamlar og telur líklegast að þær séu frá síðustu öld.

Páll sagði að "sykurskipið" hefði verið frá Finnlandi og borið einkennisstafina ES-Vitre. Það hafi verið um 8.000 tonn. Skipið hafi legið á strandstað í nokkurn tíma en hann segir að breska herliðið hafi notað það sem skotmark eftir að það kom hingað til lands árið 1940. Hann telur líklegt að kúlunni hafi verið skotið á skipið af Bretum frekar en að kúlan hafi verið ballest í skipinu.

Páll sagði að félagar í Sportkafarafélaginu hefðu tekið nokkrar kúlur úr skipinu, auk akkeris og kýrauga. Þetta hefði verið geymt á svæði félagsins í Nauthólsvík og kúlurnar hefðu m.a. verið notaðar í kúluvarp. Hann sagði að kúlurnar væru í eigu Sportkafarafélagsins en þeim hefði fækkað í gegnum árin. Greinilegt væri að kúlurnar hefðu vakið forvitni margra sem leið hefðu átt um Nauthólsvíkina.

Þess má geta að á Þjóðminjasafninu eru nokkrar járnkúlur sem fundust við Hrakhóla á Álftanesi og bárust safninu 1994. Kúlurnar eru liðlega 15 kíló og af sömu stærð og kúlan sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Halldór Baldursson læknir hefur rannsakað kúlurnar og skrifaði um þær grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1994. Niðurstaða hans var sú að kúlurnar væru hluti af æfingasprengjum sem norski sjóherinn notaði hér við land í seinni heimsstyrjöldinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert