Þéttidúkurinn er í geymslu Þjóðleikhúskjallarans

Þéttidúkurinn í geymslu Þjóðleikhúskjallarans í Gufunesi.
Þéttidúkurinn í geymslu Þjóðleikhúskjallarans í Gufunesi. mbl.is/Ásdís

Þéttidúkur sem Árni Johnsen alþingismaður keypti fyrir hönd byggingarnefndar Þjóðleikhússins er í geymslu á vegum Þjóðleikhússkjallarans upp í Gufunesi. Dúkinn keypti Árni í byrjun mánaðarins og átti að nota hann í viðgerð á austurhlið leikhússins, en lekið hefur af bílaplani inn á smíðaverkstæði leikhússins. Eftir að dúkurinn var keyptur var ákveðið að fresta framkvæmdum og liggur ekki fyrir hvenær þær hefjast.

Árni sótti dúkinn sjálfur og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fór hann með hann upp í Þjóðleikhús. Þar lá hann í nokkra daga. Þegar forráðamenn veitingarekstrar Þjóðleikhússkjallarans voru að rýma dót úr kjallaranum bað húsvörður Þjóðleikhússins þá um að taka dúkinn með sér. Það gerðu þeir og er dúkurinn nú í geymslu sem Þjóðleikhúskjallarninn er með við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Fram kom í Morgunblaðinu í dag að umræddur dúkur væri í geymslu á vegum Þjóðleikhússins og var það haft bæði eftir Árna Johnsen og Rafni Gestssyni húsverði leikhússins. Stefán Baldursson Þjóðleikhússtjóri hefur í fjölmiðlum í morgun sagt þetta vera rangt.
mbl.is