Árni Johnsen segir af sér þingmennsku

Árni Johnsen, fyrsti þingmaður Sunnlendinga, hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Árni tilkynnti Davíð Oddssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, um þessa ákvörðun sína í gærmorgun. Hann tók þessa ákvörðun þegar upplýst var að hann hefði greint fjölmiðlum rangt frá því hvar þéttidúk, sem hann keypti í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins, væri að finna. Dúkurinn fór upphaflega til Vestmannaeyja, en Árni sendi hann til Reykjavíkur á þriðjudag þegar fjölmiðlar voru farnir að flytja fréttir af störfum hans fyrir nefndina.

Um hádegisbilið í gær sendi forsætisráðherra frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:

"Árni Johnsen alþingismaður hafði samband við mig nú fyrir stundu og tilkynnti mér að hann hygðist segja af sér þingmennsku og myndi senda bréf um þá ákvörðun til forseta Alþingis á næstu dögum. Ég styð ákvörðun Árna og tel hana rétta. Jafnframt harma ég að Árna hafi orðið á þau alvarlegu mistök sem leiddu til þessarar ákvörðunar."

Forsætisráðherra sagði við Morgunblaðið að Árni hefði haft samband við sig skömmu fyrir hádegi og tilkynnt sér þetta. "Mér þykir þetta mjög miður því Árni er um margt ágætismaður þótt honum hafi orðið þetta á sem er óverjanlegt," sagði hann.

Davíð sagði að Árni hefði verið "ósköp dapur eins og augljóst er, og við sjálfsagt báðir" er þeir ræddust við.

Biður Morgunblaðið afsökunar

Árni Johnsen sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær, harma hvernig málum væri komið og kvaðst ekki geta skýrt þá framgöngu sína að hafa sagt fjölmiðlum, þar á meðal Morgunblaðinu, ósatt um þéttidúk sem keyptur var á vegum Þjóðleikhússins en Árni sagði hafa verið geymdan í geymslu á vegum Þjóðleikhússkjallarans í Gufunesi. Hið rétta er að dúkurinn var sendur til Vestmannaeyja, en sendur aftur þaðan á þriðjudag og komið fyrir í geymslunni í Gufunesi og teknar af honum myndir sem birtust í Morgunblaðinu í gær og í fréttum Ríkissjónvarpsins.

"Þetta eru mistök sem ég get ekki annað en beðist afsökunar á. Ég verð því að biðja Morgunblaðið afsökunar á því að upplýsingar sem ég gaf voru ekki réttar," sagði Árni Johnsen.

Afsögn þingmanns tekur gildi frá og með þeirri dagsetningu sem er á afsagnarbréfinu, að sögn Helga Bernódussonar, aðstoðarskrifstofustjóra Alþingis.

Helgi sagði að þingforseti myndi kynna bréfið þingheimi þegar þing kæmi saman. Jafnframt yrði fyrsti varamaður Árna boðaður til setu á þingi. Er það Kjartan Ólafsson, garðyrkjubóndi og framkvæmdastjóri Steypustöðvar Suðurlands.

Samkvæmt lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað nýtur þingmaður þingfararkaups til síðasta dags þess mánaðar er kjörtímabili eða þingsetu lýkur. Alþingismaður á og rétt á biðlaunum er hann lætur af þingmennsku. Ekkert segir í lögunum um hvað gilda skuli í þessum efnum þegar þingmaður segir af sér áður en kjörtímabili lýkur en tekið fram, að leiki vafi á um rétt alþingismanns samkvæmt lögunum skeri forsætisnefnd úr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert