Fyrsta álverið sem Alcoa reisir í tuttugu ár

G. John Pizzey, Valgerður Sverrisdóttir, Friðrik Sophusson og Finnur Ingólfsson …
G. John Pizzey, Valgerður Sverrisdóttir, Friðrik Sophusson og Finnur Ingólfsson á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Þorkell

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, G. John Pizzey, aðstoðarforstjóri Alcoa INC, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og Finnur Ingólfsson, formaður nefndar sem hefur unnið að undirbúningi hugsanlegs stóriðjuverkefnis og byggingar álvers á Austurlandi, lýstu öll ánægju sinni með það hversu hratt og vel öll undirbúningsvinna að samvinnu þessara aðila hefði gengið, á fundi með blaðamönnum í ráðherrabústaðnum í dag.

Pizzey sagði það hafa komið sér mjög á óvart hversu hratt undirbúningsferlið hafi gengið en að fyrir hvatningu íslenskra stjórnvalda hafi hlutirnir gengið hratt og örugglega. Hann sagðist bjartsýnn á að álver fyrirtækisins rísi í Reyðarfirði og að það verði á heimsmælikvarða ekki síst varðandi umhverfismál enda leggi Alcoa mikla áherslu á að unnið sé samkvæmt ströngustu umhverfisverndarkröfum. Þá sagði hann að fyrirhugað álver í Reyðarfirði verði, ef að líkum lætur, fyrsta álverið sem Alcoa reisir í tuttugu ár þar sem fjölgun álvera fyrirtækisins hafi hingað til byggst á kaupum á starfandi álverum. Valgerður sagði samstarf íslenskra stjórnvalda við Alcoa hafa gengið að óskum og að fyrirtækið hafi fullkomlega staðið undir væntingum þeirra. Þá sagðist hún telja það fyrir bestu að Alcoa kaupi Reyðarál, þar sem samstarfi við Norsk Hydro hafi verið slitið, en að ekki hafi þó enn verið gengið frá þeim kaupum. Viljayfirlýsingin í heild
mbl.is