Jólabjórinn kominn suður

Kristján Þór Júlíusson afhendir Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrsta kassann með …
Kristján Þór Júlíusson afhendir Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrsta kassann með jólabjórnum. mbl.is/Ásdís

Tekið var á móti fyrsta kassanum af jólabjór frá Viking á Akureyri með viðhöfn á Reykjavíkurflugvelli í gærmorgun. Sigmundur Ernir Rúnarsson, „sendiherra“ Akureyrar í Reykjavík, tók við kassanum úr hendi Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra Akureyrar, og flutti honum í leiðinni frumsaminn ljóðabálk um þennan mjöð. Þetta í 13. sinn sem bjór af þessari tegund kemur frá Viking-verksmiðjunni.

Kvæði Sigmundar er eftirfarandi:

Kominn er að norðan nú
úr næðingsbáli og kófi
bjórinn sem að treystir trú
í tæpu meðalhófi.

Á burtu er nú basl og kíf
berst nú yfir fjöllin
görótt öl sem gæðir líf
og glæðir hlátrasköllin.

Þetta er bjór sem bragð er að
býsna er hann kaldur
skyldi hann færa stund úr stað
og stöðva tíma og aldur?

Það er eins og þorsta minn
þessi bjórinn slökkvi
það er eins og allt um sinn
innra með mér stökkvi.

Mjöður þessi er mikið pund
og mjúkur eins og þófi
í gleri sínu gleður lund
í góðu jóla hófi.

Samkvæmt upplýsingum frá Vífilfelli er vandað sérstaklega til þessa hátíðabjórs sem aðeins verði seldur í stuttan tíma. Notað sé karamellumalt í jólabjórinn, sem gefi honum dekkri lit og keim af brenndum sykri, kaffi og karamellu. Þá sé hann látinn eftirgerjast við lágt hitastig þegar aðalgerjuninni sé lokið. Þessi vinnsluaðferð gefi jólabjórnum þétt og mjúkt bragð, mikla fyllingu og góða froðu. Bruggmeistari jólabjórsins er Baldur Kárason.

mbl.is
Loka