Á ofsahraða á Miklubraut

Lögreglumenn urðu í gærkvöldi varir við bifreið sem var ekið á miklum hraða eftir Miklubraut í Reykjavík Tókst þeim að mæla hraða bifreiðarinnar sem reyndist vera 165 km á klukkustund. Er ökumaðurinn varð lögreglunnar var, reyndi hann að stinga af og hljóp úr bifreiðinni við Hæðargarð. Hann fannst skömmu síðar og var færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum.

Fram kemur í yfirliti yfir helstu verkefni lögreglunnar um helgina, að tilkynnt var um 6 innbrot, 20 þjófnaði og 16 sinnum voru tilkynnt skemmdarverk. Þá var tilkynnt um 35 umferðaróhöpp og var í 7 þeirra um minniháttar meiðsli á fólki að ræða. 46 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og 9 voru grunaðir um að vera ölvaðir við aksturinn.

Um sex leytið á föstudagskvöldið var tilkynnt um að reyk legði frá þaki á húsi aldraðra við Þorragötu. Þarna hafði kviknað eldur í pönnu á eldavél. Nokkrar skemmdir urðu í eldhúsi og flytja þurfti tvennt á slysadeild til aðhlynningar.

Þegar vísa átti út gesti veitingastaðar í miðborginni á föstudagskvöldið brást hann illa við og réðist á dyravörð, sparkaði hann bæði í andlit og kvið dyravarðarins. Var maðurinn handtekinn og færður í fangageymslu.

Um miðnætti á föstudagskvöldið var tilkynnt um að maður hafi ógnað fólki með afsagaðri tvíhleyptri haglabyssu í húsi í vesturbænum. Maðurinn mun fyrst hafa kvartað við nágranna undan hávaða og síðan til að leggja enn frekari áherslu á orð sín hafi hann hlaupið inn til sín, sótt haglabyssuna og ógnað og hótað fólki. Síðan fór hann með byssuna inn til sín og fór síðan á brott í bifreið ásamt nokkrum öðrum. Leit var gerð að bifreiðinni sem fannst skömmu síðar og var umræddur maður handtekinn og færður í fangageymslu en hann virtist í annarlegu ástandi.

Aðfaranótt laugardags var tilkynnt um mann sem gerði sér að leik, að ganga yfir bíl sem stóð við Hverfisgötu. Urðu skemmdir bæði á vélarhlíf, þaki og vindskeið. Er lögreglumenn komu á staðinn var maðurinn horfinn og fannst ekki þrátt fyrir leit.

Skömmu síðar gaf sig á tal við lögreglumenn sem áttu leið um Hverfisgötu, maður sem var alblóðugur í framan og á höndum. Hann sagði að þá skömmu áður hafi maður ráðist á sig fyrir utan skemmtistað og gefið sér kjaftshögg. Ekki kvaðst hann kannast við manninn né geta lýst honum. Sá slasaði var fluttur á slysadeild.

Skömmu fyrir hádegi á laugardag valt bifreið á Sæbraut við Dugguvog. Það mun hafa atvikast þannig að tvær bifreiðar voru á leið vestur eftir Sæbraut á sitt hvorri akreininni er þriðja bifreiðin fer á milli þeirra, fram úr þeim. Við það missir annar ökumaðurinn vald á bifreið sinni og hún veltur. Ekki urðu alvarleg slys en fólk lemstrað eftir.

Á laugardagskvöldið var maður fluttur í sjúkrabifreið á slysadeild eftir að hann hafði drukkið einhverja ólyfjan. Maðurinn sem er vaktmaður á sundstað í austurborginni hafði tekið með sér að heiman flösku sem hann hélt innihalda gosdrykk. Innihaldið mun hins vegar hafa verið eitthvað annað og veiktist maðurinn hastarlega eftir að hafa sopið á því.

Fyrir hádegi á sunnudag var tilkynnt um vatnsleka í íbúð við Granaskjól. Þarna hafði heitavatnskrani gefið sig og heitt vatn flætt um íbúðina og einnig lak vatn niður á næstu hæð. Slökkviliðsmenn hreinsuðu upp vatnið.

Skömmu eftir hádegi á sunnudag var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við hús í austurborginni. Var maðurinn með verkfæratösku og eftir að hafa reynt um stund við útidyrnar tókst honum að komast inn í húsið. Er lögreglumenn komu á staðinn kom í ljós að þarna var viðgerðarmaður á ferðinni. Lögreglan segir, að þarna hafi nágrannar brugðist hárrétt við og gert lögreglu viðvart, þegar þeir urðu þess varir að einhver sem þeir könnuðust ekki við, væri að fara inn í húsið.

Laust eftir hádegi á sunnudag féll stúlka af hestbaki við Elliðavatn. Fann hún til eymsla í baki og var flutt á slysadeild í sjúkrabifreið.

mbl.is