Fundu nægjanlega heitt vatn til hitaveitu fyrir Grundarfjörð

Hitaveita er í sjónmáli í Grundarfirði.
Hitaveita er í sjónmáli í Grundarfirði. mbl.is

Undanfarið hafa Íslenskar orkurannsóknir unnið að jarðhitaleit við Berserkseyri milli Hraunsfjarðar og Kolgrafarfjarðar fyrir Grundfirðinga. Um 40-50°C heit laug er á skeri sem liggur 350 – 400 metra frá landi og kemur heita vatnið þar upp um sprungur. Efnagreiningar á vatninu bentu til þess að þar mætti vænta 80-90°C vatns með djúpborunum, að því er fram kemur á vef Íslenskra orkurannsókna.

Tilgangurinn með rannsóknunum var að kanna hvort þar mætti fá nægjanlega heitt vatn til húshitunar í Grundarfirði. Lengi hefur verið vitað um hita þarna en það verður fyrst með tilkomu brúar yfir Kolgrafarfjörð að hagkvæmt verður að leggja hitaveitu frá Berserkseyri til Grundarfjarðar.

Boraðar hafa verið allmargar grunnar holur til að mæla hitastigul í grenndinni og hefur komið í ljós að jarðhitakerfið sem þarna er fylgir ANA stefnu skammt undan landi og er í eystri enda gosspungukerfisins í Hraunsfirði.

Til að ná til sprungnanna stendur nú yfir borun grannrar rannsóknarholu á ská frá ströndinni inn undir meinta jarðhitasprungu. Á tæplega 300 metrum hitti borinn í vatnsæð og renna nú um 6 l/s af tæplega 80°C vatni úr holunni. Þar með hefur tekist að sýna fram á að hægt er að ná þarna nægjanlega heitu vatni til hitaveitu fyrir Grundarfjörð. Í framhaldinu verður væntanlega boruð fullvaxin vinnsluhola sem sækir vatnið dýpra í sprungukerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert