Baldur Ágústsson tilkynnir framboð til forseta Íslands

Baldur Ágústsson tilkynnir um forsetaframboð sitt í dag.
Baldur Ágústsson tilkynnir um forsetaframboð sitt í dag. mbl.is/Golli

Baldur Ágústsson, stofnandi fyrirtækisins Vara, tilkynnti með formlegum hætti um framboð sitt til embættis forseta Íslands, á blaðamannafundi á Hótel Holti í hádeginu. „Þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun en þegar saman lagðist utanaðkomandi hvatning, brennandi áhugi á íslenskum þjóðmálum og sterkar taugar til alls sem íslenskt er, þá ákvað ég að fara fram,“ sagði Baldur. Hann sagði að það hefði sérstaklega hjálpað sér að taka ákvörðunina að hvatning hefði ekki einungis komið frá vinum og fjölskyldu, heldur einnig frá fólki sem hann þekkti ekki.

Baldur segist telja að forseti Íslands eigi að vera ópólitískt sameiningartákn og að ekki eigi að standa styr um hann. „Ég vil styðja gott fólk til góðra verka eftir því sem staða embættisins leyfir,“ sagði Baldur.

Þá benti Baldur á að hann hefði aldrei verið flokksbundinn, með fullri virðingu fyrir öllum flokkum. Hann hefði spreytt sig á ýmsum störfum og bæði verið opinber starfsmaður í ábyrgðarstöðu og stofnað og rekið fyrstu öryggisþjónustuna á Íslandi.

Mun endurheimta virðingu forsetaembættisins

„Sem forseti mun ég endurheimta virðingu forsetaembættisins. Ég mun ekki eiga skoðanaskipti við stjórnmálamenn og embættismenn opinberlega og þeir ekki við mig.“

Þá sagðist hann eftir því sem tilefni væri til mundu styðja við íslenska ferðaþjónustu, útflutningsatvinnuvegina og útrás athafnamanna sem sæju sóknarfæri erlendis og þar kæmi aldarfjórðungsreynsla hans af erlendum viðskiptum til góða.

Þá sagðist Baldur vilja vinna gegn vaxandi fíkniefnaböli og meðal annars leita nýrra leiða í baráttunni gegn fíkniefnum. Önnur mál sem honum væru ofarlega í huga væru heilbrigt þjóðarstolt, verndun tungunnar, samhygð, jafnrétti og aðbúnaður aldraðra.

Baldur lagði áherslu á að hann stigi fram til að kynna sig, en ekki til að gagnrýna aðra. „Ég vænti þess að baráttan verði heiðarleg og málefnaleg, annað sæmir ekki þegar kjósa á forseta íslenska lýðveldsins.

Baldur sagði að til kynna framboð sitt muni hann efna til fundahalda víða um land, opna kosningaskrifstofu í fyrrum húsnæði DV í Þverholti og ítarlegan vef, landsmal.is, sem verði virkur á næstu dögum. Þá sé söfnun meðmælenda í fullum gangi.

Hann hyggst greiða kosningabaráttuna úr eigin vasa og ekki leita eftir fjárframlögum frá fyrirtækjum eða einstaklingum. Baldur er 59 ára og hefur dvalið í Bretlandi undanfarin ár. Eiginkona hans er Jean Plummer og halda þau heimili á tveimur stöðum, bæði í Reykjavík og London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert