Bush og Davíð segja viðræður þeirra hafa verið jákvæðar

Davíð Oddsson og George W. Bush í Hvíta húsinu í …
Davíð Oddsson og George W. Bush í Hvíta húsinu í dag. mbl.is/Einar Falur

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði eftir hálftíma langan fund með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra í Hvíta húsinu í dag, að þeir hefðu átt mjög opinskáar viðræður um varnarmálin á Íslandi. Sagði Bush að Davíð hefði verið talsvert fylginn sér og fastur fyrir á fundinum, sem væri skiljanlegt því hann legði áherslu á að tryggja öryggi síns lands og þjóðar. Lagði Bush áherslu á að þessi mál yrðu leyst með samkomulagi þjóðanna. Varðandi framtíð bandarískra orrustuþotna á Keflavíkurflugvelli sagðist Bush myndu láta skoða það mál mjög rækilega á næstunni. Davíð Oddsson sagði að fundurinn hefði verið jákvæður og að Bush skildi að Ísland gæti ekki verið varnarlaust.

Davíð sagði á stuttum fréttamannafundi að viðræðurnar um varnarmálin hefðu þokast í rétta átt á fundinum og sagði að þeir hefðu átt mjög opinskáar viðræður um þau mál. Þegar Davíð var spurður hvort þeir Bush hefðu náð samkomulagi um málefni varnarstöðvarinnar, sagði hann að ekki hefði verið ætlunin að ganga frá samkomulagi á þessum fundi heldur hefði hann útskýrt sjónarmið íslenskra stjórnvalda fyrir Bandaríkjaforseta og Bush hefði gert grein fyrir sjónarmiðum Bandaríkjastjórnar.

Bush óskaði síðan eftir að tjá sig um framtíð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og F-15 orrustuþoturnar fjórar sem þar eru staðsettar og sagði: „Forsætisráðherrann lagði mikla áherslu á að þoturnar verði áfram á Íslandi. Hann var mjög ákveðinn í því að Bandaríkjamenn viðhéldu herstöðinni. Ég svaraði honum því, að ég kæmi að þessu máli af opnum huga en ég vildi tryggja að ég skilji allar afleiðingar þeirrar ákvörðunar sem tekin verður, hvort sem hún verður um að vélarnar verði þarna áfram eða ekki. Við munum afla okkur frekari upplýsinga. Hann ætlar að afla frekari upplýsinga um varnarþarfirnar á Íslandi og aðstöðuna og ég mun hafa samband við þær stofnanir hér sem málið varða og meta málið af yfirvegun í kjölfarið. Ég sagði forsætisráðherranum að ég mæti mikils bandalag okkar og vináttu. Ég hef fullan skilning á sjónarmiðum hans og við munum vinna saman að því að leysa þetta mál," sagði Bush.

Davíð sagði við Morgunblaðið að yfirbragð fundarins með Bush hefði verið mjög gott og Bandaríkjaforseti hefði verið mjög áhugasamur um varnarmálin. Davíð sagði, að engin endanleg ákvörðun hefði verið tekin á þessari stundu en allar þær bendingar sem fram hefðu komið í viðræðunum væru mjög jákvæðar. Hann sagði að þótt ekki mætti gera of miklar væntingar þá væri það svo, að Bush skildi að Ísland gæti ekki verið varnarlaust.

Bush er 58 ára í dag og á blaðamannafundinum í Hvíta húsinu óskaði Davíð Bush til hamingju með afmælið. Í lok fundarins sungu allir fréttamennirnir afmælissönginn fyrir Bush.

Davíð Oddsson og George W. Bush í Hvíta húsinu í …
Davíð Oddsson og George W. Bush í Hvíta húsinu í dag. AP
mbl.is