Friðland að Fjallabaki í sárum

Miklar skemmdir hafa verið unnar í friðlandinu að Fjallabaki með utanvegaakstri, að sögn landvarðar á svæðinu, Helga Hjörleifssonar. "Ástandið er hreint út sagt hrikalegt.

Þetta er fimmta sumarið mitt hér í starfi, og annað sumarið sem ég starfa sem landvörður. Ég hef ekki orðið vitni að öðru eins," segir Helgi. Friðlandið er stórt, alls 47 km2, og Helgi eini landvörðurinn. Því nær hann ekki að fylgjast með öllu friðlandinu í senn, en komuleiðir í það eru fjórar. Að sögn Helga er skýrt tekið fram við allar komuleiðir að akstur utan vega sé stranglega bannaður. För eftir torfæruhjól og fjórhjól séu um stórt svæði utan vega í friðlandinu, og þau séu eftir ferðir hjólafólks um helgina.

Náttúran lengi að ná sér

Gróður í friðlandinu er mjög viðkvæmur og vex mjög hægt, enda er kaldara þar en á láglendi og gróður lengi að taka við sér að vori. Þar er meðal annars nærri svartur mosi, sem rennur saman við sandauðnina. "Sumir virðast halda að mosinn sé hluti af sandinum og átta sig ekki á að hann spænist upp við akstur. Sömuleiðis hefur verið ekið á grænum mosa. Friðlandið er hræðilegt á að líta eftir þetta. Ég hafði talið að ástandið færi batnandi og oft imprað á þessu við fólk, en greinilegt er að enn er pottur brotinn," segir hann.

Dæmi eru um fimmtíu ára gömul hjólför í friðlandinu sem enn sjást. Helgi reyndi í gær og fyrradag að minnka skaðann, en víst er að gróðurinn verður lengi að jafna sig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »