Leitin að líki Sri Rhamawati enn árangurslaus

Björgunarskip Landsbjargar og slöngubátur sem björgunarmenn nota við leitina að …
Björgunarskip Landsbjargar og slöngubátur sem björgunarmenn nota við leitina að Sri Rhamawati við Hofsvík á Kjalarnesi undir kvöld. mbl.is/Júlíus

Leit að líki Sri Rhamawati í dag og í kvöld hefur engan árangur borið, að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Reykjavík. Fyrrum sambýlismaður hennar játaði við yfirheyrslur lögreglu í dag að hafa ráðið henni bana. Segir Ómar Smári að leit verði haldið áfram í kvöld eins lengi og aðstæður leyfa. Erfiðar aðstæður séu á leitarstað, meðal annars vegna þess að mikið þang þar tefji vinnu kafara. Samkvæmt upplýsingum frá slysavarnarfélaginu Landsbjörgu taka nú um 135 björgunarsveitarmenn þátt í leit að líki Sri.

Leit kafara frá slysavarnafélaginu Landsbjörgu hófst við Presthúsatanga í Hofsvík á Kjalarnesi á fjórða tímanum í dag. 6 kafarar leituðu þar ásamt 4 köfurum lögreglunar út frá því svæði sem talið er líki Sri hafi verið varpað í sjó, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar.

Köfurum til aðstoðar var eitt af björgunarskipum Landsbjargar ásamt 2 slöngubátum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Á fimmta tímanum hófst síðan leit björgunarsveita út frá ströndinni við Presthúsatanga. Leitarsvæðið er stórt allt frá Hvalfjarðargöngum inn að Geldingarnesi. Þá eru leitaðar eyjur í Kollafirðinum s.s. Viðey og Engey ásamt því að farið er í sker á svæðinu, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar.

Við strandleitina eru einnig notaðir 3 hraðbjörgunarbátar, annað björgunarskip og 4 slöngubátar.

Ekki er áætluð frekari leit björgunarsveita á morgun. Eftir leitina í kvöld verður búið að tvíleita þau svæði sem talin eru líklegust, en án árangurs. Reiknað er með að leit ljúki á tólfta tímanum í kvöld, samkvæmt uppplýsingum Landsbjargar.

Í fyrramálið er fyrirhugað að setja úr rekald við Presthúsatanga og mun björgunarskip fylgjast með því í 12 klukkustundir og skrá hvert það fer. Í framhaldinu verða teknar ákvarðanir um frekari leit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert