Biskup hvetur til þess að opinber heildarstefna í málefnum barna verði mynduð

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. mbl.is

Kirkjuþing 2004 var sett í Grensáskirkju í dag. Í setningarræðu sinni hvatti Karl Sigurbjörnsson biskup til þjóðarvakningar í málefnum barna og sagði að ef til vill hefðu Íslendingar misst sjónar á hinum raunverulegu verðmætum. Börnin hafi verið afgangsstærð í íslensku samfélagi.

Biskup sagði meðal annars: „Enn og aftur erum við minnt á að börnin hafa verið afgangsstærð í íslensku samfélagi, allt of oft afskipt og afrækt. Og við sem erum ein ríkasta þjóð í heimi, þar sem „allt veður í peningum“ ef trúa má umræðu fjölmiðlanna! Höfum við ef til vill misst sjónar á hinum raunverulegu verðmætum? Hér þurfum við hvert og eitt að horfa í eigin barm! Er ekki eitthvað að hvað varðar gildismat okkar sjálfra? Brýnt er að marka opinbera heildarstefna í málefnum barna og að vinna að víðtækri þjóðarvakningu.“

Karl biskup ræddi einnig um kennaraverkfallið og sagði brýnt að fundin yrði leið til að tryggja kennurum viðunandi kjör. „Kennaraverkfallið hefur sett mark sitt á þjóðlífið og snertir flest heimili í landinu með einum eða öðrum hætti. Það að kennarar skuli enn og aftur finna sig knúna að beita verkfallsvopninu í kjarabaráttu sinni er óþolandi. Vegna þess að það bitnar á þeim sem síst skyldi, skólabörnunum. Það er brýnt að fundin verði leið til að tryggja kennurum viðunandi kjör. Um það verða samningsaðilar og stjórnvöld að taka höndum saman. Með starfi skólanna er lagður grundvöllur að menntun og menningu, velferð og velmegun þjóðarinnar og þar má ekkert slaka á.“

Í lokakafla ræðunnar talaði biskup Íslands um spár náttúruvísindamanna um nýja ísöld og afleiðingar ágangs á náttúruna. „Öll þurfum við, sem þjóð og sem stjórnvöld, sem leiðtogar og löggjafar og skoðanamótendur, fræðarar, uppalendur, að horfa í eigin barm og gjöra iðrun, endurmeta lífsstíl þar sem sífellt er gengið á orkulindir og troðið á lífinu og náunganum í heimtufrekju og hroka. Endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar.

Kirknasamtök á Bretlandseyjum hafa hleypt af stokkunum Nóa – aðgerðinni, „Operation Noah“ til að berjast fyrir því að dregið sé úr útblæstri koltvísýrings til að hamla gegn skaðlegum loftlagsáhrifum. Nóa – aðgerðinni er ætlað að vekja kirkjufólk og samfélagið allt til meðvitundar um óheillaþróun sem ógnar lífi og friði á jörðu. Hér mættum við Íslendingar leggja við hlustir og gefa gaum að og spyrja okkur hvort við séum ekki á helvegi með gegndarlausri eldneytissóun okkar.“

mbl.is