Össur: Andvígur lagasetningu á verkföll í grundvallaratriðum

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagðist á Alþingi í dag lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir að koma á því ástandi sem nú sé í kjaramálum kennara. Sagði Össur í grundvallaratriðum væri hann og flokkur hans á móti því að beita lögum til að stöðva verkföll.

Sagðist Össur sannfærður um að ekki hefði komið til þessarar stöðu ef ríkisstjórnin hefði sýnt sanngirni í garð sveitarfélaga varðandi tekjuskiptingu. Þá hefði ríkið sjálft búið til fordæmi með því að gera samninga við framhaldsskólakennara sem juku launabilið milli grunn- og framhaldsskólakennara. Sagðist Össur vera þeirrar skoðunar, að grunnskólakennari með tiltekna menntun eigi að hafa sömu laun og framhaldsskólakennari með sambærilega menntun.

Þá sagði Össur að það væri hlálegt að heyra forsætisráðherra segja að þessa deilu sé ekki hægt að leysa með eðlilegum hætti vegna þess að það hleypi stöðugleikanum úr jafnvægi. Sagði Össur, að óháðir aðilar gæfu ekkert fyrir verðbólguspár forsætisráðherra og verðbólguspár greiningardeilda bankanna hefðu m.a. stuðlað að því að kennarar felldu miðlunartillöguna vegna þess að þeir sáu í hendi sér að kjarabætur sem í tillögunni fælust yrðu fljótlega étnar upp.

Össur sagði einnig, að gerðardómur sá, sem frumvarp ríkisstjórnarinnar geri ráð fyrir, eigi að taka mið af kjaraþróun sambærilegra hópa og grunnskólakennara. Það hlyti að þýða að litið yrði til kjaraþróunar hjá framhaldsskólakennurum. Sagði Össur, að þá fyndist sér að vantað hafi lítið til að læsa saman tannhjólum og ná samningum en skilning ríkisvaldsins skorti á því að þessir hlutir kosti peninga.

Þá vísaði Össur m.a. til ummæla menntamálaráðherra á Alþingi um að lög á kennaradeiluna væru ill nauðsyn og reynsla af slíkri lagasetningu væri slæm og skyti vandanum einungis á frest.

mbl.is