Verkfall hugsanlega í leikskólum í janúar

Samninganefnd Félags leikskólakennara hefur verið boðuð til fundar á mánudaginn og verður tekin þar ákvörðun um hvort vísa skuli kjaradeilu félagsins og Launanefndar sveitarfélaga strax til meðferðar hjá ríkissáttsemjara og efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls í leikskólum sem hæfist 3. janúar 2005.

Fram kemur á heimasíðu Kennarasambands Íslands, að fundurinn á mánudag sé boðaður vegna þeirrar alvarlegu stöðu, sem upp sé komin í kjaradeilu grunnskólans og sem geti haft mikil áhrif á kjaraviðræður allra annarra kennarfélaga.

Gert er ráð fyrir að Alþingi setji um helgina lög á verkfall grunnskólakennara og skólastarf í grunnskólum hefjist þá á ný á mánudag.

mbl.is