Landssöfnun til styrktar fórnarlömbum hamfara í Asíu í undirbúningi

Fauwzi, tvítug inónesísk kona sem lifði hamfarirnar af, gefur syni …
Fauwzi, tvítug inónesísk kona sem lifði hamfarirnar af, gefur syni sínum brjóst í neyðarbúðum í Banda Aceh á Súmötru. AP

Samstarfshópur einstaklinga, fyrirtækja og fjölmiðla undirbýr nú landssöfnun til styrktar þeim sem þjást vegna hamfaraflóðanna í Asíu, að því er segir í tilkynningu Rauða kross Íslands. Þar segir að söfnunin hefjist á mánudag og nái hámarki með sjónvarpsútsendingu laugardaginn 15. janúar. Verndari söfnunarinnar og talsmaður verður Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

„Söfnunin fer fram undir kjörorðunum Neyðarhjálp úr norðri. Landsmönnum mun gefast kostur á að hringja í söfnunarsíma alla næstu viku og einnig verður safnað í Smáralind og Kringlunni á föstudag og laugardag í næstu viku. Hámarki nær söfnunin svo með beinni sjónvarpsútsendingu laugardagskvöldið 15. janúar,“ að því er fram kemur í tilkynningunni.

Allt fé sem safnast fer til neyðarhjálpar og uppbyggingar á hamfarasvæðunum í gegnum hjálparstarf Rauða kross Íslands, Hjálparstarfs kirkjunnar, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, SOS barnaþorpa og Unicef.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert