Fischer segist bæði ætla að dvelja á Íslandi og ferðast

Bobby Fischer á blaðamannafundinum í dag. Hann hefur látið snyrta …
Bobby Fischer á blaðamannafundinum í dag. Hann hefur látið snyrta hár sitt og skegg. mbl.is/Sverrir

Skákmeistarinn Bobby Fischer sagði á blaðamannafundi á Hótel Loftleiðum í dag að það væri mjög gott að vera kominn til Íslands og að hann skildi bara ekkert í því að hann hefði nokkru sinni farið héðan enda væri hér bæði nóg af plássi og hreinu lofti. Þá sagðist hann bæði hafa í hyggju að dvelja á Íslandi og ferðast í framtíðinni en að hann sé ekki búinn að ákveða hvernig hann myndi haga lífi sínu hér eða hvort hann færi út í húsnæðiskaup.

Fischer sagðist vera hættur að tefla og að hann ætlaði því hvorki að tefla við íslenska skákmenn né taka þátt í að kenna ungum Íslendingum skáklistina. Hann sagði þó augljóst að hann væri enn besti skákmaður heims hefði hann ekki hætt að tefla. Þá sagði hann áhuga Íslendinga á skák vera misskilning sem rekja mætti til þess að fólk vissi ekki hversu mikil spilling tengdist greininni.

Þegar hann var spurður að því hvort hann ætlaði að læra íslensku gaf hann lítið út á það og sagðist telja það óþarfa þar sem flestir Íslendingar tali góða enski.

Um þrjátíu fréttamenn víða að úr heiminum voru á fundinum sem hófst rúmum klukkutíma eftir að til hans var boðað og hafði einn íslensku blaðamannanna á orði, á meðan beðið var, að óvissan minnti mest á það þegar Fischer var hér á landi árið 1972.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert