Gunnar hvattur til að segja af sér þingmennsku

Á fundi, sem frambjóðendur og stuðningsmanna Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2003 héldu í dag var samþykkt ályktun þar sem harmað er að Gunnar Örlygsson hafi snúið baki við félögum sínum í Frjálslynda flokknum og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Segir í ályktuninni að með þessari gjörð hafi Gunnar fyrirgert því trausti sem flokksmenn báru til hans. Í ljósi þessa hvetji þeir Gunnar til að sýna af sér þann drengskap að segja sig frá þingmennsku, svo að Frjálslyndi flokkurinn megi á ný eiga fjóra þingmenn á Alþingi Íslendinga, í samræmi við þau atkvæði sem flokknum voru greidd við síðustu alþingiskosningar. Þetta sé í senn sanngjörn og lýðræðisleg krafa.

mbl.is