Ólafur Ragnar: mikilvægt að við sýnum öll samstöðu

Farþegi sem staddur var í neðanjarðarlestarkerfinu þegar árásirnar voru gerðar …
Farþegi sem staddur var í neðanjarðarlestarkerfinu þegar árásirnar voru gerðar tók þessa mynd af fólki á leið út úr lestargöngum í námunda við Kings Cross í morgun. AP

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú voru stödd í London í dag þegar hryðjuverkaárásirnar áttu sér stað. Ólafur Ragnar sagði í samtali við Morgunblaðið að þeim hafi ekki verið nein hætta búin en ein af árásunum hafi hins vegar átt sér stað í nágrenni við þau.

„Þessir hryllilegu atburðir hafa haft víðtæk áhrif og lamað nánast alla miðborgina. Ekki aðeins að lestir hafi verið stöðvaðar og allir strætisvagnar heldur hefur umferðin meira og minna horfið af götunum og hundruð ef ekki þúsundir atburða vítt og breitt farið úr skorðum,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Auðvitað er það markmið hryðjuverkaaflanna að reyna með þessum hætti að setja hið opna og lýðræðislega samfélag úr skorðum og þá er mikilvægt að við sýnum öll á þessum stundum samstöðu og staðfastan vilja okkar til þess að koma í veg fyrir að slíkt ætlunarverk takist,“ sagði hann einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert