Davíð Oddsson: „Samúð okkar er með Bretum"

„Það eru hryllilegir atburðir sem þarna hafa gerst," segir Davíð Oddsson utanríkisráðherra um hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum í gærmorgun og bætir því við að ýmsir hafi haldið því fram að einhvers konar árás af þessu tagi væri óumflýjanleg í Bretlandi fyrr eða síðar.

„Engu að síður kemur hún óhugnanlega á óvart og er að mati Breta versta hryðjuverkaárás sem þeir hafa orðið fyrir en þeir hafa samt marga fjöruna sopið í þessum efnum." Davíð fordæmir árásirnar og segir að slíkt hið sama geri allir heiðarlegir menn og heiðarlegar þjóðir.

„Samúð okkar er auðvitað með gamalli og góðri vinaþjóð og jafnvel þótt hún væri það ekki ætti fólkið sem fyrir þessu verður alla okkar samúð," segir Davíð.

Að mati Davíðs leikur enginn vafi á því að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda standa á bak við árásirnar í Lundúnum þrátt fyrir að það hafi ekki endanlega verið staðfest.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert