Óska eftir meiri löggæslu

Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar fyrir Kárahnjúka, segir mótmæli andstæðinga virkjunarframkvæmda komin út yfir öll eðlileg mörk. Segir hann nokkrar skemmdir hafa orðið á eignum Landsvirkjunar, verktaka á þeirra vegum og skiltum Vegagerðarinnar.

Í morgun tóku menn eftir að vörubíll, sem var á bak við skemmuna sem máluð var með lakkúða í fyrrakvöld, hafði verið grýttur. Voru hurðir bílsins beyglaðar og framrúða hans mölbrotin. Sigurður segir Landsvirkjun ætla að kæra mótmælendur vegna skemmda á eignum og hvetur fyrirtækið verktaka til að gera slíkt hið sama. Þá muni fyrirtækið óska eftir að löggæsla á svæðinu verði efld.

„Við höfum rætt við verktakana á svæðinu um að þeir verði á varðbergi allan sólarhringinn og efli vörslu með eigin tækjum. Þá munum við styðja við þá sem kæra skemmdarverk mótmælenda til lögreglu,“ sagði Sigurður í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins og bætti við að Landsvirkjun ætli að kæra skemmdir sem unnar hafa verið á byggingum, skiltum og tækjum í eigu fyrirtækisins. Sagði hann Landsvirkjun ekki ætla að halda uppi lögum og reglu á svæðinu. Það sé í höndum lögreglu enda Kárahnjúkar í umdæmi þess. Hafi fyrirtækið óskað eftir því að löggæslan á Kárahnjúkum verði efld og vonaði hann að lögreglan vakti svæðið eitthvað frameftir degi.

Lögreglan hefur aðstöðu á Kárahnjúkum og segir Sigurður að henni verði veitt gistiaðstaða í búðunum verði óskað eftir því.

Ómar Valdimarsson, talsmaður verktakafyrirtækisins Impregilo, sagði að verið væri að skoða hvort lögð yrði fram kæra og skaðabótakrafa vegna þess tjóns sem aðgerðirnar hefðu valdið.

Þá sagði Ómar, að það væri ekki rétt, sem kæmi fram í yfirlýsingu frá mótmælendunum í dag, að mikil hætta hafi skapast þegar lögregla skipaði mönnum á vinnuvélum, sem fólkið var hlekkjað við, að setja vélarnar í gang, vegna þess að lögreglumennirnir og bílstjórarnir hafi ekki talað sama tungumál. Sagði Ómar, að vinnuvélunum þremur hefðu stjórnað tveir Íslendingar og einn Færeyingur, sem skilur íslensku mætavel.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld að óskað hefði verið eftir því að tveimur Bretum, sem teknir voru höndum í nótt, verði vísað úr landi. Útlendingastofnun segir óvíst hvort unnt verði að verða við óskunum enda hafi þeir ekki verið kærðir vegna mótmælanna.

mbl.is