Íslendingar stoltir af þjóðerni sínu

Íslendingar, Austurríkismenn og Lúxemborgarar eru hreyknastir af þjóðerni sínu samkvæmt könnun, sem Gallup hefur gert fyrir breska ríkisútvarpið, BBC, meðal íbúa 68 landa víða um heim. Yfir helmingur þátttakenda í þessum þremur löndum sögðu að þjóðernið væri þeim afar mikilvægt.

Könnunin miðaði að því að leiða í ljós viðhorf í mismunandi löndum til stjórnvalda og stjórnenda. Í könnuninni var spurt um traust, völd, athafnafrelsi og ímynd.

Fram kom í könnuninni, að Evrópubúar eru einna tortryggnastir í garð valdamanna. Þeir treysta fæstir fjölmiðlum og margir vildu sjá fræðimenn taka virkari þátt í mótun þjóðfélagsins.

Könnunin var gerð í 23 Evrópuríkjum og þriðjungur aðspurðra þar sagðist ekki treysta stjórnmálamönnum í viðskipta-, trú- og hermálum. Í könnuninni í heild var þetta hlutfall um fjórðungur.

Aðeins einn af hverjum fimm Evrópubúum treysta blaðamönnum, ef marka má könnunina, eða fréttina um hana.

Afkoma virðist hafa áhrif á það hvort fólk telji að það geti sjálft ráðið því hvernig líf þess þróast. Í Bretlandi, Danmörku, Noregi og á Írlandi sögðust yfir 75% aðspurðra telja að þeir gætu breytt eigin lífi en innan við helmingur í austurhluta Evrópu var þeirrar skoðunar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert