Stúfur vinsælasti jólasveinninn

Stúfur virðist súr á svip þrátt fyrir vinsældirnar.
Stúfur virðist súr á svip þrátt fyrir vinsældirnar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Stúfur er vinsælasti jólasveinninn með 30,1% fylgi samkvæmt könnun sem IMG Gallup gerði í jólamánuðinum. Fast á hæla honum fylgir Kertasníkir með 28,1% fylgi. Þvörusleikir og Askasleikir eru óvinsælustu jólasveinarnir með 0,5% og 0,2% fylgi. 578 manns tóku þátt í könnuninni en 78,4% svarenda sögðust eiga sinn uppáhalds jólasvein. 6% sögðu alla jólasveinana í uppáhaldi.

Svör karla og kvenna skiptist nokkuð jafnt í könnuninni en 222 karlar svöruðu en 220 konur. Jafn undarlegt og það hljómar þá er Stúfur vinsælastur á meðal kvenna, með 33,3% fylgi en 26,8% fylgi karla. Fleiri konur kusu hins vegar Kertasníki fram yfir Stúf en 34,2% þeirra sögðu hann uppáhalds jólasveininn sinn en einungis 21,8% karla. Körlum líkaði síður við Hurðaskellir, sem hlaut 12,3% fylgi. Konum líkaði hann mun verra en einungis 9,9% aðspurðra sögðu hann uppáhalds jólasveininn sinn.

Stúfur naut mest fylgis fólks á aldrinum 16-24 ára en 42,5% aðspurðra sögðu hann uppáhalds jólasveininn.

Í könnun Gallup kemur fram að menntun fólks skiptir litlu máli þegar kemur að vali á jólasveinum. 33,7% fólks með grunnskólapróf sögðu Stúf í uppáhaldi en og 33,0 með háskólapróf svöruðu í sömu mynt.

Þá er vart teljandi munur á því hvort fólk styðji ríkisstjórnina eður ei en 31,4% aðspurða sem styðja ríkisstjórnina sögðu Stúf í uppáhaldi. 28,5% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina sögðu Stúf líka í uppáhaldi.

Stúfur ekki uppáhald hjá kjósendum Vinstri-grænna

Hvað fylgi við einstaka stjórnmálaflokka varðar eykst bilið á milli jólasveina hins vegar nokkuð. Stúfur naut nokkuð almenns fylgis stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar en lítils stuðnings Vinstri-grænna. Þegar spurt var hvaða flokk yrði kosið ef gengið yrði til kosninga nú sögðu 35,5% kjósenda Framsóknarflokksins að Stúfur væri í uppáhaldi, 29,7% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 32,3% kjósenda Samfylkingarinnar. Einungis 17,8% þeirra sem myndu kjósa Vinstri-græna ef gengið yrði til kosninga nú sögðu Stúf í uppáhaldi. Líkaði þeim mun betur við Kertasníki en kjósendum annarra flokka.

mbl.is