Borgarstjóri segir Samfylkinguna fullfæra um að kynna sína stefnu sjálf

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að meinlegum þvættingi um um stefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík hafi verið haldið fram í tilkynningu til fjölmiðla frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins í dag.

Í tilkynningu frá Steinunni kemur fram að Samfylkingin sé fullfær um að kynna sína stefnu sjálf, en það veki vissulega athygli að á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki til að styðja áform Samfylkingarinnar um gjaldfrjálsan leikskóla þvertaki hann fyrir sanngjarna gjaldtöku fyrir notkun bílastæða. „Það má rukka fyrir börnin en ekki fyrir bílinn,“ segir Steinunn.

„Fjöldi aðila hefur leitað til Reykjavíkurborgar um gjaldheimtu af bílastæðum í þeirra eigu og hefur Bílastæðasjóður þegar tekið upp gjaldtöku fyrir Landsbankann. Þá hafa háskólar, sjúkrastofnanir og fleiri aðilar, sem hafa þurft að fjárfesta í bílastæðum, leitað á náðir borgaryfirvalda með hugmyndir um gjaldtöku,“ segir hún.

Þá segir hún að stefna Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarstjórn í dag, miði að því að draga úr því flæmi sem nú fer undir bílastæði og önnur samgöngumannvirki, en það sé um helmingur borgarlandsins.

Vísað er til stefnunnar þar sem segir orðrétt: „ Hvetja skal fyrirtæki til að nýta möguleikann á strætókorti fyrir starfsmenn sína í stað niðurgreiðslu bílastæða við vinnustaði og skal Reykjavíkurborg taka frumkvæðið í framkvæmd af þessu tagi.“

Með örvæntingarfullri og rangri túlkun sinni á þessu atriði stefnunnar opinberar Sjálfstæðisflokkurinn forgangsröðun sína í þjónustu við borgarbúa; það má ekki taka gjald af þjónustu við bíla en það má taka gjald af þjónustu við börn segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert