Dagný Jónsdóttir býður sig ekki fram til þings

Dagný Jónsdóttir þingkona.
Dagný Jónsdóttir þingkona. mbl.is/Hafþór

Dagný Jónsdóttir ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á Alþingi í vor, að því er kemur fram á fréttavefnum Austurglugginn í dag. Dagný mun hafa tilkynnt þetta á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins sem fram fer á Hótel Framtíð á Djúpavogi í dag og á morgun.

Í fréttinni segir: ,,Í kveðjuræðu sinni mun Dagný hafa gefið það til kynna að undanfarið kjörtímabil hafi verið erfitt og samstarfið í þingflokknum misjafnt á stundum. Hún útilokaði þó ekki að bjóða sig aftur fram síðar. Í samtali við Austurgluggann í haust lýst Dagný því yfir að hún ætlaði að bjóða sig fram á nýjan leik í vor en miðað við yfirlýsingu hennar áðan er ljóst að af því verður ekki.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður, hefur gefið kost á sér í annað sæti listans og Sigfús Karlsson, formaður unglingaráðs handknattleiksdiledar KA, bauð sig fram í það fjórða.

Þá eru uppi kenningar um að Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknarflokksins, muni bjóða sig fram í þriðja sæti listans, en hún bjó á Seyðisfjarði frá því hún var kornabarn og þar til hún fór í skóla."

mbl.is

Bloggað um fréttina