Vill að tilteknir árgangar barna fái ókeyps tanneftirlit

Í rannsókn, sem heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið lét gera í samvinnu við Lýðheilsustöð á munnheilsu og ástandi tanna barna og unglinga á skólaárinu 2004-2005, kemur fram að aðeins 22% af 12 ára börnum eru með allar tennur óskemmdar. Er þetta mun verra ástand en hjá börnum á hinum Norðurlöndunum.

Sigurjón Benediktsson, formaður Tannlæknafélags Íslands, segir að engir samningar hafi verið gerðir við tannlækna frá árinu 1998. Heilbrigðisráðuneytið hafi búið til gjaldskrá sem sé í engu samræmi við raunverulegan tannlæknakostnað. Því hafi sjúklingar tannlækna þurft að greiða mismuninn á styrk Tryggingastofnunar og raunverulegum kostnaði og það valdi því að börn komi síður í reglubundið eftirlit til tannlækna.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir niðurstöðu könnunarinnar áhyggjuefni. Hún sagði að 20% barna á aldrinum 4-18 ára komi ekki. Sagðist Siv hafa ákveðið að hefja samningaviðræður við tannlækna um að þeir þjónusti ákveðna árganga barna, sem komi þá í ókeypis eftirlit og skoðun hjá tannlækni. Segist Siv telja brýnt að nota ákveðinn hluta skattfé til að skapa möguleika á ókeypis komu barna til tannlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina