„Reynir á túlkun Hæstaréttar"

Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari hefur lýst því yfir að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Hæstaréttar þar sem reynt verður að fá honum hnekkt í því skyni að fá málið tekið til efnismeðferðar fyrir héraðsdómi.

„Ég er ósammála niðurstöðu héraðsdóms þess efnis að 10. gr. samkeppnislaga lýsi ekki refsiverðri hegðun einstaklinga heldur eingöngu fyrirtækja og þar með sé persónuleg refsiábyrgð einstaklinganna ekki fyrir hendi. Nú í framhaldinu reynir svo á hvernig Hæstiréttur muni túlka samkeppnislögin að þessu leyti,"segir hann.

„Ég er ennfremur ósammála þeirri niðurstöðu að jafnræðissjónarmið eigi að leiða til frávísunar, enda á það sér engin fordæmi að ákæru hafi verið vísað frá dómi á þeim forsendum," segir hann. "Það ber líka að líta til þess að ákærðu voru ekki valdir úr hópi jafningja því þeir voru stjórnendur olíufélaganna. Það var því ástæða fyrir því að þeir sættu ákæru."

Táknar endalok málsins

Um þann þátt er lýtur að athugasemdum dómsins um verknaðarlýsingu ákærunnar bendir Helgi á að rannsókn málsins sjálfs hafi leitt ákveðna þætti í ljós og ákæruefnunum verði ekki lýst nákvæmar en gögn gefa tilefni til. „Ég tel að ekki eigi að þurfa að vísa í einstök samskipti forstjóra og undirmanna þeirra, en ef þess verður krafist, þ.e. upplýsinga um fyrirmæli eða slíkt, þá táknar það endalok málsins, því slíkum samskiptum verður ekki lýst nákvæmlega vegna svo löngu liðinna brota. Sönnunarfærslan undir efnismeðferð málsins átti að leiða í ljós vitneskju forstjóranna og stefnumörkun þeirra í tengslum við sakarefnið.

Það kemur mér þó ekki á óvart að ýmsir fletir á rannsókninni séu óheppilegir, en þó vil ég taka skýrt fram að með því er ég ekki að álasa samkeppnisyfirvöldum fyrir sína vinnu enda tel ég rannsókn þeirra hafa verið mjög góða á meintum brotum félaganna. En það er erfiðara að leiða í ljós einstök samskipti sakborninga og vitna þegar sakborningar neita að tjá sig við lögreglu með þeim rökum að þeir hafi verið búnir að tjá sig hjá samkeppnisyfirvöldum."

„Tímabært að leiða málið til lykta"

Kristinn Björnsson fyrrverandi forstjóri Skeljungs hf. segist gera sér vonir um að senn fari að sjá fyrir endann á lögsókn einstaklinga í olíumálinu.

„Það er komið á sjötta ár síðan aðgerðir Samkeppnisstofnunar gegn olíufélögunum hófust í málinu og kannski er orðið tímabært að leiða málið til lykta. Það hafa 36 einstaklingar verið með réttarstöðu sakbornings í þessum máli og síðan var ákveðið að ákæra þrjá. Þetta er niðurstaða héraðsdóms og við verðum að bíða og sjá hver niðurstaða Hæstaréttar verður ef málið fer þangað."

„Afar mikilvægt að fá þessa niðurstöðu"

„Það var afar mikilvægt að fá þessa niðurstöðu fram og það er óhætt að segja að rökstuðningur dómsins hafi verið í samræmi við væntingar okkar að flestu leyti," segir Gísli Baldur Garðarsson verjandi Einars Benediktssonar fyrrverandi forstjóra Olíuverzlunar Íslands hf. „Með þessum úrskurði getum við átt von á því að mál fari að þróast á jákvæðari hátt en raunin hefur verið hingað til.

Að mínu mati vegur einna þyngst sú niðurstaða dómsins að ekki hafi verið lagagrundvöllur til að beita starfsfólk umræddra fyrirtækja refsingu."

Braut gróflega gegn jafnræðisreglu

„Í þessum úrskurði er fallist á þau sjónarmið sem við lögðum mesta áherslu á," segir Ragnar H. Hall verjandi Kristins Björnssonar fyrrverandi forstjóra Skeljungs hf. „Það sem vegur langþyngst er annars vegar spurningin um hvort refsiheimild í samkeppnislögum nái til einstaklinga sem starfa hjá fyrirtækjum þegar um er að ræða ætluð brot gegn 10. gr. samkeppnislaga um samráð fyrirtækja á markaði. Hinsvegar er það síðan verknaðarlýsingin í ákærunni sem að mínu áliti er heldur sérkennileg. Þá fellst dómari á að ákæruvaldið hafi við meðferð málsins brotið gróflega gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir ákærðu í málinu að fallist sé á frávísunarkröfuna," segir Ragnar. „Þetta er mjög mikilvæg niðurstaða og mér sýnist ákæruvaldið hafa svolítið verkefni að reyna að hnekkja þessum þrem liðum [fyrir Hæstarétti]."

Hvorki Geir Magnússon fyrrverandi forstjóri Olíufélagsins, né verjandi hans, Ragnar Tómas Árnason, tjáðu sig um úrskurðinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert