Valgerður: Tilbúin að takast á við varaformannsembættið

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, boðaði til blaðamannafundar í húsnæði Framsóknarflokksins við Hverfisgötu í dag en þar lýsti hún yfir að hún hyggist bjóða sig fram til embættis varaformanns flokksins á miðstjórnarfundi sem fram fer í næsta mánuði. Hún segist vera tilbúin að takast á við varaformannsembættið.

„Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi verið frjálslyndur umbótaflokkur eins og stefnuyfirlýsingar í gegnum tíðina bera með sér. En það er mjög athyglisvert að sú ríkisstjórn sem tók við völdum í gær, að hún hafi þurft að sækja í smiðju Framsóknarflokksins til að skilgreina sig og kalla sig frjálslynda umbótastjórn,“ sagði Valgerður og benti á að það væri mikill munur á frjálslyndi og frjálshyggju.

Hún lagði sérstaka áherslu á að stefna Framsóknarflokksins væri hvorki til hægri eða vinstri heldur beint áfram.

Hún sagði að sú staða sem sé komin upp í íslenskum stjórnmálum skapi ný tækifæri fyrir Framsóknarflokkinn. „Þegar þrír flokkar á vinstri vængnum sameinuðust í Samfylkingu á sínum tíma þá var það megintilgangurinn að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Þá var talað um tvo póla í íslenskum stjórnmálum. En með samstarfi Sjálftæðisflokks og Samfylkingar þá heyrir þetta sögunni til.“

„Það má segja að Samfylkingin hafi gefist upp á að keppa við Sjálfstæðisflokkinn og auk þess þá hafi Sjálfstæðisflokkurinn hætt baráttunni gegn því að gefa Samfylkingunni tækifæri,“ sagði Valgerður á blaðamannafundinum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert