Síminn dreifir 3G símum til heyrnarlausra

Síminn ætlar að hefja afhendingu 3G-síma til heyrnarlausra á mánudag. Geta félagar í Félagi heyrnarlausra komið í verslun Símans í Ármúla 25 fram til 22. september og sótt sér nýjan Motorola V3xx-síma og fengið aðgang að 3G-kerfi Símans. Haukur Vilhjálmsson frá Félagi heyrnarlausra verður í versluninni frá kl. 10-14 alla dagana og aðstoðar félagsmenn við að læra á nýja símann.

Síminn og Félag heyrnarlausra hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að allir meðlimir félagsins auk heyrnarlausra grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu fá tækifæri til að eignast Motorola V3xx 3G-síma sér að kostnaðarlausu. Að auki gefur Síminn 3G-áskrift til 1. nóvember nk. með öllum nýju 3G-símunum. Jafnframt fær Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra 3G-síma frá Símanum sem einfaldar heyrnarlausum að eiga samskipti.

mbl.is

Bloggað um fréttina