Lögreglan: Ótrúlegt að ekki skyldi verða stórslys

„Bíllinn tættist yfir stórt svæði og ótrúlegt að ekki skyldi verða stórslys þarna," sagði varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vélin mun hafa þeyst úr bíl sem valt eftir að hafa verið ekið á miklum hraða á norðurleið eftir Kringlumýrarbraut í Reykjavík á ellefta tímanum í gærkvöldi. Bíllinn sem var af BMW gerð hreinlega tættist í sundur og hjólastell rifnaði undan honum er hann valt. Kringlumýrarbraut var lokuð í um tvo tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni mun ökumaðurinn hafa misst stjórn á bíl sínum, farið upp á umferðareyju og bíllinn oltið. Bíllinn tættist í sundur og endaði á ljósastaur sem féll yfir götuna. Brak dreifðist á um 200 metra kafla um götuna.

Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild Borgarspítalans en eftir athugun fékk ökumaður að fara heim ómeiddur en farþegi hans dvelur þar nú til frekari rannsókna en er ekki alvarlega slasaður.

Ökumaðurinn mun vera um tvítugt og að sögn lögreglu er hann grunaður um ofsaakstur og hefur verið sviptur ökuréttindum ævilangt.

Málið fer í rannsókn innan skamms en fjöldi vitna er að slysinu og einn bíll sem kom úr gagnstæðri átt er óökufær eftir að hafa fengið á sig brak úr bílnum sem olli slysinu.

mbl.is