VG: Einkavæðing heilsugæslu framundan

Landspítali háskólasjúkrahús
Landspítali háskólasjúkrahús mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vinstri Grænir segja að ríkisstjórnin sé að svelta heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu á fjármagni með einkavæðingu í huga. Jón Bjarnason þingmaður VG og fulltrúi í fjárlaganefnd hefur flutt tillögur um stóraukin framlög til heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og krafist þess að á málefnum hennar sé tekið.

Jón sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að málið sé alvarlegt ekki bara fyrir heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu heldur víða um land og segir brýnt að ná þverpólitískri sátt um eflingu heilsugæslu landsmanna.Öflug heilsugæsla sé einn mikilvægasti þátturinn í almennri heilsuvernd og forvörnum og það sé því gróf afturför í heilbrigðismálum ef heilsugæslan á nú að draga saman þjónustu sína.

„Við vinstrigræn höfum ítrekað fjallað um þessi mál í þinginu, nú síðast í umræðum um fjáraukalög á fimmtudag. Hér er bæði um að ræða uppsafnaðan rekstrarhalla en einnig fjárþörf fyrir næsta ár“ segir Jón.

Stjórnarandstaðan lagði á föstudag sameiginlega til breytingatillögu upp á 400 milljóna króna aukaframlag í fjáraukalögum til heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til þess að bæta upp ólíðandi hallarekstur undanfarinna ára. Tillagan var felld.

Jón segir jafnframt að fyrir liggi breytingatillögur VG til fjárlaga næsta árs um nauðsynlegar hækkanir framlaga.

Jón segir að það verði spennandi að sjá hvernig atkvæði verða nú greidd um þessar tillögur til hækkunar framlaga á fjárlögum.

Hann sagðist vera hræddur um að niðurskurður á þjónustu heilsugæslunnar sé einn liðurinn í að neyða kerfið allt til einkavæðingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina