Nýju Hvalfjarðargöngin verða á minna dýpi

Tilraunaboranir vegna gerðar nýrra Hvalfjarðarganga eru komnar vel á veg, að sögn Gísla Gíslasonar, stjórnarformanns Spalar. Ráðgert er að þeim ljúki í lok þessa mánaðar.

„Þetta lítur bara vel út,“ sagði Gísli. Bundnar eru vonir við að niðurstöður borananna geri kleift að grafa nýju göngin 20-30 metrum grynnra en núverandi göng sem fara alveg niður á 165 metra dýpi undir sjávarmáli. Með því verða nýju göngin styttri, ódýrari og veghallinn upp úr þeim minni. Hugmyndin er að nýju göngin verði um 40 metrum innar í Hvalfirði en núverandi göng.

Gísli segir að Skipulagsstofnun hafi sagt að ný göng þyrftu ekki að fara í sérstakt umhverfismat. Spölur hf. hafi talið rétt að kanna betur jarðfræðilegar aðstæður, þrátt fyrir að rannsóknir sem gerðar voru áður en núverandi göng voru grafin hafi reynst mjög góðar. Spölur stefnir að því að ljúka öllum undirbúningi á miðju þessu ári, á tíu ára afmæli ganganna, þannig að næsta skref verði hönnunarvinna. „Þá eru menn klárir í að tvöfalda þegar þeir hafa náð niðurstöðu um hvernig á að fjármagna og hvernig þeir vilja sjá framtíðina í þessu,“ sagði Gísli.

Í upphafi voru Hvalfjarðargöng hugsuð fyrir 5.000 bíla á sólarhring, en umferðin nú er allt að því 5.500-6.000 bílar. „Ég er þeirrar skoðunar að þegar þetta er farið að nálgast 6.000 bíla verði ekki undan því komist að gera ný göng. Til að leysa fyrirsjáanlegan vanda sé ég ekki annað en að menn verði að komast af stað á næstu tveimur árum,“ sagði Gísli. Menn ættu að horfa til þess að hafa tvöfaldað göngin og gert tvöfaldan veg á Kjalarnesi innan fjögurra ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »