Ótvírætt að Breiðavíkurdvöl hafði mótandi áhrif

Breiðavík.
Breiðavík. Árvakur/Ómar

Nefnd, sem fjallað hefur um starfsemi Breiðavíkurheimilisins, segir í skýrslu sinni, að ekki sé nokkur vafi á að dvöl á vistheimilinu á Breiðavík hefur haft mótandi áhrif á sjálfsmynd og persónulegan þroska einstaklinga sem dvöldu þar.

Erfitt sé þó að greina milli áhrifa Breiðavíkurdvalar og annarra uppeldisáhrifa  en í flestum tilvikum hafi fyrrverandi vistmenn Breiðavíkurheimilisins komið frá heimilum þar sem aðstæður voru slæmar.

Í þeim tilvikum hafi börnin væntanlega verið í sérstakri þörf fyrir góða umönnun og aðbúnað eftir að þau voru  fjarlægð af heimili sínu og jafnframt verið enn viðkvæmari fyrir illri meðferð.

Að mati nefndarinnar virðast sumir vistmenn á afmörkuðum tímabilum í sögu Breiðavíkurheimilisins hafa orðið fyrir illri meðferð og/eða ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða annarra vistmanna. Bæði í ljósi fyrirliggjandi vitneskju um afleiðingar slíkra atburða,  og af frásögnum fyrrverandi vistmanna í viðtölum við nefndina megi ráða, að margir þeirra hafi orðið fyrir varanlegum neikvæðum áhrifum af dvölinni þar.

Breiðavíkurskýrslan

mbl.is