Mannabein fundust á víðavangi í Kjósarhreppi

Mannabein fundust á víðavangi í Kjósarhreppi um kvöldmatarleytið í gær. Fram kemur á heimasíðu Kjósarhrepps, að beinafundurinn var þegar tilkynntur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um var að ræða hauskúpu, tíu til þrjátíu ára gamla samkvæmt fyrstu vísbendingum. Talið er að hauskúpan sé af konu.

Lögreglumenn úr tæknideild lögreglunnar komu á svæðið um klukkan 23 i gærkvöldi  og ljósabíll frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins mætti  til að lýsa upp vettvang. Ákveðið var að fresta ýtarlegri rannsókn á vettvangi til morguns þar sem ekkert fleira hefði komið í ljós. 

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fann maður sem var þarna á ferð beinin og tilkynnti lögreglu um fundinn. Læknir sem skoðaði beinin staðfesti að um væri að ræða hluta úr höfuðkúpu. Málið er í rannsókn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina