Samgöngumiðstöð hýsi alla samgöngustarfsemi

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/KGA

Á fundi Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, og Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, í dag kynnti Ólafur tillögur að lausn samgöngumála í Vatnsmýri sem miða að byggingu samgöngumiðstöðvar, sem verði ætlað að hýsa alla samgöngustarfsemi.

Á byggingin að vera miðstöð flugstarfsemi, almenningssamgangna, hópferðabifreiða, leigubifreiða o.s.frv. Hlutverk hennar sé þannig mikilvægt, hvort sem innanlandsflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni eða ekki.

Í samræmi við þetta hlutverk samgöngumiðstöðvar leggur Reykjavíkurborg áherslu á að öll uppbygging og starfsemi vegna flugrekstrar í Vatnsmýri fari fram í fyrirhugaðri samgöngumiðstöð og sameinist þar á einu svæði í stað þess að dreifast víða um Vatnsmýrina. Til að sú uppbygging geti hafist þarf að ganga frá samkomulagi milli borgar og ríkis vegna þeirrar lóðar sem þegar hefur verið merkt þessari starfsemi. Lóðin sem er sunnan Hringbrautar og vestan Valssvæðisins við Hlíðarenda er í heild um 7 hektarar. Sú stærð miðast við flugrekstrarstarfsemi.

Reykjavíkurborg leggur áherslu á að samkomulag verði um makaskipti á landi milli ríkis og borgar vegna þessa. Reykjavíkurborg telur mikilvægt að miða við að fyrsti áfangi samgöngumiðstöðvar verði tilbúin eigi síðar en í lok árs 2009. Fram að þeim tíma mun borgin heimila að jaðar þeirrar lóðar geti nýst flugrekstraraðilum sem nú hafa ekki aðstöðu á vellinum, enda verði sú starfsemi síðar hluti samgöngumiðstöðvar. Deiliskipulagsvinna vegna samgöngumiðstöðvar er þegar hafin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert