Torrent-maðurinn leitar að styrkjum

Svavar Lúthersson. Myndin er samsett.
Svavar Lúthersson. Myndin er samsett.

„Já, ég er mjög blankur. Það eru ekki margir sem ráða mig í vinnu þessa dagana. Ég veit ekki af hverju, hvort ég sé ekki nógu aðlaðandi starfskraftur eða vegna ferils míns hjá Istorrent. Ég er búinn að vera atvinnulaus síðan um áramót,“ segir Svavar Lúthersson sem birti fyrir viku áskorun til áhugamanna um skráaskipti á jafningjaneti um að styrkja sig fjárhagslega vegna lögfræðikostnaðar sem hefur tilkomið vegna málshöfðunar Samtaka myndrétthafa á Íslandi og fleiri aðila á hendur honum og Istorrent ehf.

Vantar mikið upp á

Lögfræðikostnaður Svavars hljóðar nú upp á þrjár milljónir króna og hann segir að kostnaðurinn muni aukast þegar málið fer fyrir Hæstarétt. „Fjárhagslega er ástandið mjög slæmt. Lögfræðikostnaðurinn er stór og mikill og svo á Hæstiréttur eftir að bætast við.“

Svavar birti áskorun sína á vefsíðu sinni torrent.is á föstudaginn var og hann segir að síðan þá hafi nokkur kippur komið í söfnunina. „Upphæðin sem var inni á reikningnum hefur tvöfaldast.“ Þegar Svavar ræddi við 24 stundir höfðu safnast um 206.000 krónur en Svavar býst við að fleiri styrkir komi inn um mánaðamótin. „Ég hef fengið loforð um styrki um næstu mánaðamót. Ég minntist á ástandið rétt fyrir helgi og fólk fær auðvitað greidd út launin um mánaðamótin þannig að ég geri ekki ráð fyrir að allir sem vilja gefa hafi gefið.“ Svavar vonar að nógu margir muni styrkja hann en hann segist vera búinn að undirbúa sig fyrir það að hann gæti farið illa út úr málaferlunum fjárhagslega.

Píslarvottur netverja

Í pistlinum, sem birtist á torrent.is, lýsir Svavar yfir vonbrigðum sínum yfir því að samfélag áhugamanna um skráaskipti hafi ekki staðið betur við bakið á honum en raun ber vitni, segir að sér líði eins og fórn sem var skilin eftir fyrir hrægammana.

„Það mætti segja að ég sé píslarvottur þótt ég vilji ekki skilgreina mig sem slíkan.“

Í hnotskurn
Torrent.is var opnuð árið 2005. 19. nóvember 2007 er sett lögbann á síðuna. Í kjölfarið var mál höfðað gegn Istorrent og Svavari. 27. mars var málinu vísað frá í Héraðsdómi Reykjaness en stefnendur áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar 2. apríl.
mbl.is