Dregið úr starfsemi sjúkrahúsa

Landspítali.
Landspítali.

Sjúkrahúsin á suðvesturhorni landsins, þ.e. Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Landspítali, Sjúkrahúsið og heilsugæslan á Akranesi og St. Jósefsspítali - Sólvangur, hafa yfirfarið og samræmt sumarstarfsemi sína. Verður dregið úr starfsemi flestra þeirra yfir sumarmánuðina.

Á hand- og lyflæknisdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verður dregið úr starfsemi og 15 rúm höfð opin. Skurðstofa verður lokuð í 7 vikur, frá 23. júní - 11. ágúst, og dregið úr skurðaðgerðum aðrar vikur sumarsins. Fæðingum fækkar á sama tíma og skurðstofa verður lokuð vegna skorts á skurðstofuaðgengi en sængurlegurými verða opin.

Á hjúkrunardeild á 3. hæð verða opnuð 10 rúm í vor eða 6 viðbótarrými. Þau skiptast í 8 rými fyrir heilabilaða og 2 hvíldarrými. Önnur starfsemi verður óbreytt.

Skurðstofa verður lokuð í rúmar 6 vikur, frá 30. júní - 14. ágúst á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Fæðingum fækkar á sama tíma og skurðstofa verður lokuð vegna skorts á skurðstofuaðgengi en sængurlegurými verður óbreytt. Stefnt er að því að önnur starfsemi verði óbreytt en ekki hefur gengið að fá nægilega marga hjúkrunarfræðinga til starfa. Ef ekki rætist úr með mönnun hjúkrunarfræðinga þarf að loka hjúkrunar- og endurhæfingardeild í 4 - 6 vikur í sumar.

Sumarstarfsemi Landspítala verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Fimm daga öldrunarendurhæfingardeildir verða lokaðar í 5 vikur hvor en önnur öldrunarrými verða opin. Samdráttur verður í þjónustu endurhæfingarsviðs en þó er gert ráð fyrir að 26 legurými verði opin sem er heldur meira en sl. sumar. Dregið verður úr starfsemi á skurðstofum og skurðdeildum á skurðlækningasviði, barnasviði og kvennasviði þannig að skipulagðar skurðaðgerðir verða færri en allri bráðaþjónustu verður sinnt. Dregið verður úr þjónustu dag- og göngudeilda þar sem því verður við komið.

Lyflækninga- og handlækningadeildir sjúkrahússins á Akranesi verða reknar sem ein deild með 18 rúm frá 10. júní - 19. ágúst. Ein skurðstofa verður opin allt sumarið í stað tveggja yfir vetrarmánuðina. Dregið verður úr liðskiptaaðgerðum. Þær verða gerðar annan hvern mánudag en aðrar skurðaðgerðir eftir því sem legurými leyfir. Önnur starfsemi verður óbreytt.

Samdráttur er ekki fyrirhugaður í starfsemi Sólvangs.

Skurðstofur og handlækningadeild á St. Jósefsspítala verða lokaðar frá 7. júlí - 25. ágúst. Samdráttur verður á lyflækningadeildinni og hún rekin með 10 - 12 rúm í sumar. Samdrátturinn er meiri en sl. sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert