Missti stjórn á skapi sínu

Frá atvikinu á Kirkjusandi á sumardaginn fyrsta
Frá atvikinu á Kirkjusandi á sumardaginn fyrsta mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Ágúst Fylkisson, sem sló lögregluþjón í andlitið á athafnasvæði lögreglunnar við Kirkjusand á sumardaginn fyrsta hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann er bæði sleginn og leiður yfir því að hafa misst stjórn á skapi sínu. Ágúst verður ákærður fyrir líkamsárás. 

„Ég sá rautt"

„Það er ekkert launungarmál að ég er bæði sleginn og leiður yfir atviki því sem varð síðastliðinn fimmtudag þegar ég missti stjórn á skapi mínu og snéri niður lögregluþjón við Kirkjusand. Ég veit fullvel að það er ekkert sem ég get sagt til að taka þetta til baka, en þar sem fleiri hafa misst sig en ég vil ég koma nokkrum hlutum á hreint.

Ég er fjarri því að vera mikill skapmaður eins og ótalmargir geta vitnað um. Atburðir undanfarinna daga og sú neyð sem hrakti mig og aðra atvinnubílstjóra útí aðgerðir hafa tekið sinn toll og þanþolið var við það að bresta á miðvikudag þegar ég horfði uppá lögreglu beita félaga mína, saklausa áhorfendur og jafnvel barn hörku af fyrrabragði, á þessum svarta degi var farið langt útfyrir alla meðalhófsreglu, ekki skrítið að maður hafi upplifað sig í hættu og þetta setið í manni.

Mín leið á erfiðum tímum hefur venjulega verið að hlægja að aðstæðum og það fór því svo að ég stillti mér upp fyrir blaðalljósmyndara á fimmtudeginum veifandi kylfu og grettur á svip, Þetta átti að vera nett ádeila á viðbrögð lögreglu deginum áður. Eftir myndatökuna mæti ég á Kirkjusand til að sýna félögum mínum stuðning.

Á Kirkjusandi var ég beðinn um leyfi fyrir líkamsleit sem ég sagði óþarfa og afhenti möglunarlaust kylfuna en tók það skýrt fram að ég vildi fá hana til baka þegar ég færi af svæðinu og var það samþykkt af lögregluþjóni. Eitthvað leist yfirvaldinu samt illa á „vopnaburðinn" og var ég beðinn um skilríki sem ég afhenti án teljandi muldurs.

Hegðun lögreglumanna á svæðinu fannst mér ögrandi og virðing í samskiptum engin, t.d. tók það mikið tuð að fá skilríkið til baka. Þegar skilríkjunum var loks skilað og ég hugðist hafa mig á brott af svæðinu og bið um kylfu mína til baka þá neitaði lögreglumaður því þrátt fyrir fyrr gefið loforð.

Það verður að viðurkennast að þarna sá ég rautt. Ég hlaut sjálfur ágætt uppeldi og hef ekki lagt fyrir mig að ljúga og svíkja, þessi eignaupptaka fannst mér með öllu ósanngjörn og ekki bætti þau tilsvör sem ég fékk þegar ég ítrekaði kröfu mína.

Það sem gerðist næst er hlutur sem ég sé mikið eftir en ég snéri niður lögregluþjóninn sem hafði ögrað mér. Á leifturhraða hópuðust að lögregluþjónar og lögðust á okkur í eina kás, ég hafði þá sleppt taki á lögregluþjóninum en lá fastur í þvögu sárþjáður með laskað hné og í andnauð og var því hvorki fær um að meiða lögregluþjóninn, né koma mér úr þvögunni. Þungi lögregluþjónanna sem ofaná okkur lá held ég að hafi skaðað téðan lögreglumann meira en nokkuð annað.

Biðst afsökunar

Einhverjir fjölmiðlar hafa ekki sagt eða sýnt frá öllu eins og þetta kom fyrir. Ég vil nota þetta tækifæri til að biðja lögregluþjóninn afsökunar, það var ekki ætlun mín að meiða hann og er ég þess fullviss að ef við hefðum hist við aðrar kringumstæður hefðum við getað sötrað saman bjór og rætt um boltann, aðstæðurnar voru bara fjandsamlegri en svo og það fundu fleiri en ég því margt hefur fokið í hitanum síðustu daga.

Ég vona að þetta atvik dragi ekki úr þeim góða stuðningi sem málstaðurinn hefur hlotið hjá almenningi og þetta sýnir kannski betur en margt annað hversu mikil neyðin er hjá þeim sem reka flutningabíla, afkoma fjölskyldna þeirra er í hættu.

Það fer enginn útí svona aðgerðir nema neyðin sé þess mun meiri. Þegar aðstæður eru þannig að það er upp og ofan hvort maður getur brauðfætt fjölskylduna þá fara menn útí aðgerðir, það er náttúrulegt. Ég vona að fólk taki afsökunarbeiðni minni og standi við bakið á því góða fólki sem minnir á sig með nettri borgaralegri óhlýðni," undir þetta ritar Ágúst Fylkisson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina