Laun grunnskólakennara hækka

Ólafur Loftsson, formaður FG, og Karl Björnsson, formaður samninganefndar LS, …
Ólafur Loftsson, formaður FG, og Karl Björnsson, formaður samninganefndar LS, handsala samninginn. Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari stendur fyrir aftur. mbl.is/RAX

Skrifað var undir kjarasamning milli Félags grunnskólakennara (FG) og launanefndar sveitarfélaga (LS) í dag. Samningurinn gildir til eins árs og hækka laun kennara um 25 þúsund krónur á mánuði 1. júní auk hækkana í ágúst og október.

Samkvæmt upplýsingum frá samningsaðilum er með hækkuninni 1. júní verið að hluta til að færa launataxta að greiddum launum þar sem yfirborganir hafa átt sér stað.  Við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst bætast 9000 krónur inn í launatöflu auk þess sem uppbyggingu hennar er breytt til hagsbóta fyrir yngri kennara. 1. október hækka öll starfsheiti um einn launaflokk.

Þessar þrjár hækkanir fyrir þá, sem ekki hafa notið yfirborgana, nema samtals um 15-23% á grunnlaun eftir aldurshópum. Þann 1. janúar 2009 hækka laun síðan um 2,5%. Á þessu ári má vænta að launakostnaður sveitarfélaga vegna þessa samnings hækki um 1,2 milljarða króna.

Fram kemur í tilkynningu, að undirbúningur að gerð þess kjarasamnings hafi byrjað fyrir um einu og hálfu ári þegar Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari,  leiddi saman á óformlegan hátt núverandi formenn samninganefndanna. Tilgangurinn var að finna leiðir til að bæta samskipti aðila og taka upp ný vinnubrögð í kjaraviðræðum.

Í mars á síðasta ári var gert samkomulag um tímasetta aðgerðaáætlun. Á grundvelli hennar hefur annars vegar verið unnið að sameiginlegri stefnumótun kennara, stjórnenda og fulltrúa sveitarstjórna  í málefnum grunnskólans og stendur sú vinna enn yfir.  Hins vegar var myndaður starfshópur sem framkvæmdi nákvæma könnun á launakjörum grunnskólakennara.

Skýrt kom fram í þessari könnun að launakjör grunnskólakennara eru töluvert lakari en háskólamenntaðra samanburðarhópa.

Þegar formlegar kjaraviðræður hófust í febrúarmánuði sl. voru aðilar sammála því að í upphafi yrði samið um sameiginleg markmið og gengu þeir samningar greiðlega. Fyrsta markmiðið var að grunnlaun og starfskjör kennara yrðu jöfnuð við laun annarra háskólamenntaðra starfsmanna sem sinna sambærilegum störfum, þannig að laun og önnur kjör kennara verði samkeppnisfær við kjör samanburðarhópa. Þetta þýði m.a. að hækka þurfi sérstaklega laun yngstu kennara og byrjenda vegna þess að staða þeirra hafi verið mun lakari en viðmiðunarhópa.

Núgildandisamningur rennur út 31. maí nk. og tekur þá þessi samningur við og gildir í eitt ár. Aðilar hafa einnig samið um að sá samningur, sem þá tekur við renni út á sama tíma og kjarasamningar annarra stéttarfélaga starfsmanna sveitarfélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert