Dæmdur í þriggja ára fangelsi

Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins, var í Héraðsdómi Suðurlands dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart fjórum konum. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða konunum skaðabætur. Lögmaður Guðmundar telur líklegt að dómnum verði áfrýjað en Guðmundur var ekki viðstaddur dómsuppsöguna.

Dómur Guðmundar er óskilorðsbundinn og er honum gert að greiða allan sakarkostnað 3.886.758 krónur. Guðmundi er gert að greiða einni konunni 2 milljónir króna í miskabætur auk vaxta. Tveimur konum 1,5 milljón króna auk vaxta og þeirri fjórðu eina milljón króna auk vaxta.

Í ákæru ríkissaksóknara gegn Guðmundi kom fram að hann var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa sem forstöðumaður, meðferðarráðgjafi og stjórnandi kristilegra samkoma á vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimilinu Byrginu, kristilegu líknarfélagi, Efri-Brú, Grímsnesi, haft samræði og önnur kynferðismök við fjórar konur, sem voru vistmenn í Byrginu og sóttu meðferðarviðtöl hjá ákærða, og með því að hafa misnotað freklega þá aðstöðu sína að konurnar voru honum háðar sem skjólstæðingar hans í trúnaðarsambandi.

Guðmundur var ákærður fyrir að hafa frá haustinu 2004 til aprílmánaðar 2005, í tvö til fjögur skipti í viku haft samræði og önnur kynferðismök við konuna, sem fékk hæstu bæturnar, þegar hún var vistmaður í Byrginu og sótti þar meðferð vegna vímuefnamisnotkunar. Kynmökin áttu sér oftast stað í Byrginu en einnig í nokkur skipti í sumarhúsi í Ölfusborgum og í eitt skipti í kjallaraherbergi á heimili ákærða í Hafnarfirði.

 Frá apríl 2005 til nóvember 2006, eftir að konan flutti úr Byrginu, allt að fimm sinnum í viku, haft samræði og önnur kynferðismök við hana á heimili hennar í Reykjavík, en á þessum tíma sótti konan kristilegar samkomur og meðferð, þar á meðal meðferðarviðtöl hjá ákærða í Byrginu.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að með hliðsjón af því sem kom fram við málið og með vísan til framburðar stúlkunnar, sem var mjög trúverðugur fyrir dómi, framburðar vitna og þeirra skjala og mynda þykir lögfull sönnun fram komin um að Guðmundur hafi átt í kynlífssambandi við stúlkuna með þeim hætti og á því tímabili sem lýst er í ákærunni. 

Upphaf málsins gegn Guðmundi má rekja til kæru stúlkunnar sem hún lagði fram í desember 2006.  Kvaðst hún hafa leitað til Byrgisins í apríl 2004 þar sem hún hafi verið búin að vera í gríðarlega harðri fíkniefnaneyslu og hafi meðal annars sprautað sig með fíkniefnum. Hafi hún verið í meðferðarviðtölum hjá ákærða sem hafi prédikað sem prestur eða pastor. Hafi ákærði í meðferðarviðtölunum byrjað að ræða um kynlíf og kynnt henni BDSM-kynlíf. Hafi hún átt í kynlífssambandi við ákærða frá því haustið 2004 allt til haustsins 2006. Deginum áður en hún lagði fram kæruna kom hún fram í þættinum Kompás hjá sjónvarpsstöðinni Stöð 2 og sagði frá reynslu sinni.

Önnur kona lagði fram kæru gegn Guðmundi þann 15. janúar 2007 en henni voru dæmdar 1,5 milljón króna í bætur í héraðsdómi í morgun. Í ákæru hennar gegn Guðmundi kemur fram að á tímabilinu frá apríl 2004 til maí 2005, nánast á hverjum degi, hafi Guðmundur haft samræði og önnur kynferðismök við hana þegar hún var vistmaður í Byrginu og sótti þar meðferð vegna vímuefnamisnotkunar. Kynferðismökin áttu sér oftast stað í Byrginu en einnig á hótelum í Reykjavík.

Í niðurstöðu héraðsdóm kemur fram að það þyki sannað, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, að Guðmundur hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um og hann því sakfelldur fyrir það sem fram kom í ákærunni.

Þann 25. janúar 2007 lagði þriðja stúlkan fram kæru á hendur Guðmundi vegna kynferðisbrots er átti sér stað þegar hún var vistmaður í Byrginu á tímabilinu frá september 2003 til febrúar 2004 og einnig eftir þann tíma er hún var starfsmaður og á sama tíma í meðferð hjá ákærða fram til september 2005.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að þrátt fyrir að Guðmundur hafi ekki haft beint samræði við stúlkuna þá telur dómurinn sannað, með framburði stúlkunnar og vitnis að Guðmundur hafi í allt fjórum sinnum stundað kynlífsathafnir með stúlkunni frá haustinu 2004 til vors 2005, tvisvar sinnum í sumarbústað að Laugarvatni haustið 2004, í eitt skipti á heimili Guðmundar í Hafnarfirði, og einu sinni á hóteli. Hafi hann í þeim kynlífsathöfnum notað kynlífstæki, svipur, bönd og gervilimi sem notað hafi verið til að fara í endaþarm og leggöng eins og stúlkan lýsti fyrir dómi. Þá hafi stúlkan þurft að horfa á Guðmund hafa samræði við konu sína í „kennslu“ þessari. Fellur þessi háttsemi ákærða undir hugtakið „önnur kynferðismök“  eins og segir í 197. og 198. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur Guðmundur  því gerst sekur um að hafa í fjögur skipti, en ekki í allt að tíu skipti, haft við stúlkuna önnur kynferðismök. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að kynferðismökin hafi átt sér stað í Byrginu en stúlkan sjálf hefur lýst því svo að fyrstu skiptin hafi verið í sumarbústað að Laugarvatni. Verður ákærði því hvorki sakfelldur fyrir þá háttsemi né að hafa haft samræði við stúlkuna. Þegar Guðmundur braut gegn stúlkunni í fyrsta sinn í sumarbústað á Laugarvatni um haustið 2004 var hún aðeins 17 ára gömul. Var litið til þess við ákvörðun refsingar. Stúlkunni voru dæmdar 1 milljón króna í miskabætur.

Þann 26. janúar 2007 lagði fjórða konan fram ákæru á hendur Guðmundi fyrir kynferðisbrot. Guðmundur var ákærður fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konuna, þegar hún var vistmaður í Byrginu og sótti þar stuðningsmeðferð, í nokkur skipti haustið 2003 á heimili hennar,  Byrginu og á þriðja staðnum. Í sjö eða átta skipti sumarið 2006 í sumarhúsi við Laugarvatn, í skóglendi í Hagavík við Þingvallavatn, á útivistarsvæði við Álfaskeið í Hrunamannahreppi, á vegi við Búrfell í Grímsnesi og í Byrginu. Þótti sannað að Guðmundur hafi gerst sekur um þau brot sem hann var ákærður fyrir gegn konunni og var hann sakfelldur fyrir þau fyrir utan að hafa haft samræði við konuna á vegi við Búrfell í Grímsnesi á árinu 2003 þar sem kæran hafi borist of seint.

Dómurinn í heild 


Guðmundur Jónsson forstöðumaður Byrgisins
Guðmundur Jónsson forstöðumaður Byrgisins
mbl.is