Heimild til að taka 500 milljarða lán

Ríkissjóður fær heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán á þessu ári til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans, samkvæmt frumvarpi, sem fjármálaráðherra leggur fram á Alþingi. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði í fréttum Útvarpsins að ekki væri ljóst hvort öll heimildin yrði nýtt, verði frumvarpið samþykkt.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafi um nokkurt skeið undirbúið aðgerðir til að styrkja gjaldeyrisforðann og auka aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé. Sú stefna hafi verið mörkuð af hálfu stjórnvalda fyrri hluta árs 2006 að gjaldeyrisforðinn skyldi efldur.

Veigamikið skref í þá átt hafi verið stigið í árslok 2006 með lántöku ríkissjóðs að fjárhæð einn milljarður evra sem endurlánað var Seðlabankanum. Vegna þeirrar erfiðu stöðu sem verið hafi á fjármálamörkuðum að undanförnu þyki rétt að haldið verði áfram á þessari braut.

Nýlega gerði Seðlabankinn tvíhliða gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur sem hver um sig veitir Seðlabankanum aðgang að allt að 500 milljónum evra gegn íslenskum krónum. Erlend lántaka ríkissjóðs í því skyni að efla gjaldeyrisforðann enn frekar sé til athugunar. Jafnframt þyki æskilegt að svigrúm ríkissjóðs verði aukið til útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði ef þess er talin þörf í því skyni að efla innlent fjármálakerfi og stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

Mikil eftirspurn eftir skammtímabréfum að undanförnu hafi dregið nokkuð úr virkni peningastefnu Seðlabankans og haft óheppileg hliðaráhrif á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina